140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

ábyrgð og eftirlit hins opinbera gagnvart einkarekinni heilbrigðisþjónustu í ljósi sílikonpúða-málsins.

[14:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er nauðsynlegt í kjölfar þessa hneykslis að endurmeta allt regluverk og samskipti hins opinbera við einkareknar læknastofur. Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um starfshóp sem tekur á þessu máli og legg áherslu á að í þeim hópi þarf auðvitað að vera landlæknir sem á að framfylgja eftirliti af hálfu hins opinbera.

Það er með ólíkindum og það er ámælisvert að mínu mati að Læknafélag Íslands skuli skjóta skildi fyrir nokkra félaga sína sem neita að verða við tilmælum landlæknis og veita upplýsingar um hvaða konur hafa fengið svikna og að margra mati heilsuspillandi PIP-púða í brjóst sín. Í stað þess að verja heilsu og líf kvennanna sem í hlut eiga og hvetja lýtalækna til að hjálpa heilbrigðisyfirvöldum til að ná utan um málið tefur Læknafélagið aðgerðir hins opinbera með því að kalla eftir úrskurði Persónuverndar sem enn er beðið eftir.

Frú forseti. Hingað til hefur ekki þvælst fyrir lýtalæknum eða öðrum sérgreinalæknum að senda persónugreinanlegar upplýsingar um læknisverk sem sjúkratryggingar greiða fyrir, en því miður virðist mér nú að Læknafélag Íslands telji persónuvernd sjúklinga sem borga læknum beint yfir borðið mikilvægari og helgari en persónuvernd annarra sjúklinga. Það er eftirtektarvert og ég tel það bíræfið, ekki síst í ljósi skattrannsóknar sem nú er hafin á félagsmönnum þeirra. Lýtalækningar eru fyrir löngu komnar út á markaðstorgið og eru greinilega og væntanlega þess vegna sama marki brenndar og margt annað í viðskiptaumhverfinu sem við þekkjum frá hruninu. Ég sakna þess að yfirvöld hafi ekki bent læknum og þeim 440 fórnarlömbum sem um ræðir á að sjálfstætt starfandi sérfræðingar og lækningastofur eiga að hafa ábyrgðartryggingu til að greiða skaðann sem þær geta valdið og enn fremur að bótakrafa fyrnist á 10 árum. Þannig getur sú staða komið upp að konur sem fengu PIP-púða fyrir 1. febrúar 2002 hefðu á morgun eða nú þegar (Forseti hringir.) tapað bótarétti sínum.