140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

fundarstjórn.

[14:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í fullri vinsemd upplýsa hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson um það að ástæðan fyrir þessari tvöföldu umræðu, sem hann hér kallar, er langt í frá að vera einhver óeining innan stjórnarflokkanna. Ég hefði talið að hv. þingmaður hefði með okkur hinum getað fagnað því að hér gæfist meiri tími til ítarlegri umræðna til að fjalla um eins margar ólíkar hliðar og mögulegt er á þessu alvarlega máli.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á þessu þingi sem þessi háttur er hafður á. Ég leyfi mér að minna á, kannski sérstaklega vegna þess að sá hæstv. forseti sem nú situr á forsetastóli var málshefjandi annarrar umræðunnar, en sú er hér stendur hinnar, að fyrir jól fór hér fram tvöföld umræða, annars vegar um Sogn og hins vegar um stöðu ósakhæfra brotamanna. Ég tel sem sé að þetta sé mjög góð leið og rétt og ég vil ítreka að það er ekkert sem heitir óeining, og það er óþarfi að vera að píska slíkt upp, í tengslum við þetta alvörumál, og það er ábyrgðarlaust.