140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

fundarstjórn.

[14:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef búið er að opna fyrir þennan lið, að svara því sem kemur fram í umræðu, og líka opna fyrir gamanmál, held ég að sjálfsagt sé að nýta sér það. Ég er að vísu ekki með neinn brandara eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem sagði að það væri fáránlegt að tala um óeiningu innan stjórnarliðsins en það er auðvitað kómískt að hlusta á slíkt við þessar aðstæður.

Ég hef verið á þingi, virðulegi forseti, frá 2003 og það hefur oft komið upp að menn eru með svipaðar umræður og nákvæmlega með sömu nálgunina og þá komast þeir bara að niðurstöðu um það hver eigi að vera framsögumaður. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig. Ef þetta er orðið þannig að menn geta ekki komið sér saman um slíka hluti, vanalega hefur reglan verið sú að sá sem kemur fyrstur fram er sá aðili sem hefur þá umræðuna, held ég að við séum komin á nokkuð sérstakar brautir. En ég held ég mundi reyna eitthvað annað en halda því fram úr þessum stóli, sama hver væri, að ekki væri óeining innan ríkisstjórnarliðsins og ég ætla ekki að fara í langa ræðu um það.