140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

fundarstjórn.

[14:43]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki stillt mig um að blanda mér aðeins í þessa umræðu því að ég kannast ekki við það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson heldur fram að einhver ágreiningur hafi verið um það hver ætti að vera framsögumaður þessa máls. Það bárust einfaldlega tvær tillögur að umræðuefnum sem tengjast báðar þessu sílikonpúðamáli og mér fannst það bráðsnjöll hugmynd hjá forseta þingsins að setja á tvær umræður um málið. Önnur lýtur að eftirlits- og ábyrgðarhlutanum, hin lýtur beinlínis að viðbrögðunum gagnvart þeim konum sem nú líða bæði andlegar og líkamlegar þjáningar fyrir þau mistök eða það glæpsamlega athæfi, eftir því hvernig á það er litið, sem átti sér stað í þessu máli. Ég hefði haldið að fyrrverandi heilbrigðisráðherra mundi fagna því sérstaklega að með þessu móti skyldi fást lengri tími og ítarlegri til umræðna um þetta alvarlega mál.