140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[14:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er óþarfi að fara í aðdragandann, við höfum farið yfir hann hér, en staðan er sú að í samfélaginu eru þúsund til fimmtán hundruð manns sem hafa verulega miklar áhyggjur af heilsu og andlegri líðan sinna nánustu, móður sinnar, dóttur, systur, eiginkonu, þessara 440 kvenna sem fengið hafa PIP-brjóstapúða, svikna vöru og af mörgum álitið skaðlega vöru. Þetta er lítið samfélag og við þurfum að halda þétt hvert utan um annað þegar eitthvað bjátar á. Þetta hneykslismál varðar þessar 440 konur fyrst og fremst. Tafaleikir Læknafélagsins og aðgerðaleysi yfirvalda fram til þessa hefur því miður aukið á líkamlega vanlíðan og gert andlega heilsu þeirra erfiðari.

Ef rúta, ekki með 440 konum heldur 40 konum, hefði lent í ófærum eða hættu hefði konunum strax verið boðin áfallahjálp en eftir að upplýst var um þetta hneyksli opinberlega 20. desember síðastliðinn og hver konan á fætur annarri kom fram og lýsti heilsuleysi sínu sem þær rekja til púðanna liðu heilar fimm vikur þar til þær fengu náðarsamlegast að panta tíma í ókeypis ómskoðun.

Yfir 100 konur undirbúa nú málsókn vegna þessara sviknu púða. Margar þeirra hafa þriggja til fjögurra ára sjúkrasögu að baki og hafa gengið í gegnum ítarlegar læknisrannsóknir án árangurs. Hluti þeirra hefur hins vegar látið fjarlægja púðana og iðnaðarsílikon sem komið var upp í háls og í eitla. Það er eftirtektarvert að við það batnar heilsa þeirra hratt sem er þvert á það sem ætla mætti ef yfirlýsingar lýtalæknisins, landlæknis og ráðuneytisins væru fullkomlega réttar.

Allri þessari umræðu og ekki síst þessari töf og bið fylgir mikil andleg vanlíðan, einkum hjá þeim sem enn eru að bíða eftir bréfinu góða. Í velferðarnefnd í gær var upplýst að margar þessara kvenna eru nánast óvinnufærar af hræðslu. Ég er undrandi á því að velferðarráðuneytið og landlæknir skuli ekki hafa brugðist skjótar við og stutt betur við þennan hóp. Konur hafa því miður tugum saman þurft að bíða og komið að lokuðum dyrum í heilbrigðisþjónustunni í fimm vikur á sama tíma og lýtalæknar bjóða þeim þjónustu sína fyrir 450–620 þúsund, eftir því sem upplýst var á fundi velferðarnefndar í gær.

Málið er orðið að krísu, var sagt í velferðarnefnd í gær, sem magnast upp vegna þess að hver vísar á annan. Þar var lögð áhersla á að taka þarf á þessu máli með allt öðrum hætti, það þarf að taka höndum saman og hafa fórnarlömbin með í ráðum og hafa þarfir þeirra og óskir í forgrunni þegar aðgerðir eru metnar. Velferðarnefnd hefur nú til umfjöllunar frumvarp um heilbrigðisstarfsmenn og ég tek undir það sem sagt var áðan, í þeim lögum eða öðrum verður að tryggja að heilbrigðisstarfsmenn eða menn þeim nákomnir, við skulum ekki gleyma því, geti ekki framleitt, flutt inn eða selt lyf, lækningavörur, lækningatæki eða íhluti og ávísað þeim eða selt sínum eigin sjúklingum eða á heilbrigðisstofnun sem þeir vinna að.

Þetta er hlutverk okkar, löggjafans. Spurningar mínar til framkvæmdarvaldsins, til hæstv. ráðherra, lúta hins vegar að þeirri ógn sem andlegri og líkamlegri heilsu þessara rúmlega 400 kvenna stafar af því að hafa fengið þessa sviknu vöru, iðnaðarsílikon, í brjóstin og að viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda, ráðuneytis og landlæknis, við því.

Ég spyr í fyrsta lagi hvort ráðherra hafi kynnt sér sjúkraskýrslur eða frásagnir kvenna sem náð hafa heilsu aftur eftir langvarandi veikindi þegar míglekir PIP-púðar og iðnaðarsílikonleifar hafa verið fjarlægð úr líkama þeirra. Hver er skýring ráðherra á þeirri töf sem varð á því að boða konurnar í skoðun sem fyrst var gert fimm vikum eftir að upp komst?

Frá því fyrir jól hafa konurnar og fjölskyldur þeirra þurft að búa við kvíða og angist, hræðslu og óvissu. Af hverju var ekki brugðist við fyrr og sett upp hjálparmiðstöð og áfallahjálp fyrir þennan stóra hóp?

Loks vísa ég til þess að heilbrigðisyfirvöld í Frakklandi og Þýskalandi ráðleggja konum að láta fjarlægja PIP-púða úr líkama sínum. Ég spyr, í ljósi þess að heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa ákveðið að fjarlægja púðana: Ef konur hafa verulega miklar áhyggjur af að bera þá, er ráðherra enn þeirrar skoðunar að aðeins eigi að fjarlægja PIP-púða úr brjóstum kvenna eftir að þeir eru sannarlega (Forseti hringir.) farnir að leka?