140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[14:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög alvarlegt mál og ég vona að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sé búin að kynna sér vel það sem hún segir vegna þess að hér hafa fallið stór orð. Það er ekki samræmi milli orða hæstv. ráðherra og hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Það er afskaplega mikilvægt að í þessu máli tali menn af ábyrgð og ég vona að (Gripið fram í.) hv. þingmenn geri það því að hér eru hafðar uppi mjög alvarlegar ásakanir á hendur hæstv. ráðherra. Ég er ekki fær um að meta hvort þær séu réttar.

Hæstv. ráðherra kom inn á hluti sem bent hefur verið á, skráningarmálin voru meðal annars í umræðunni þegar við sameinuðum þessi embætti. Þessi mál tengjast líka samræmdri sjúkraskrá og vonandi berum við gæfu til að ganga betur fram en raun ber vitni. Ég tek eftir því og bið hæstv. ráðherra að koma aðeins inn á það, það á kannski við annan hóp samkvæmt öðru ferli, að sá hópur sem settur var á fót er nokkuð afmarkaður, þar er einungis verið að hugsa um einkareknu stofurnar en ekki eftirlitið hjá hinu opinbera eða þá eftirlit almennt. Ég hef að minnsta kosti ekki séð nein svör við því af hverju landlæknisembættið brást við eins og raun bar vitni árið 2010 þegar það fékk vitneskju um að þessir púðar væru ekki notaðir annars staðar, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir rakti í fyrri umræðu.

Að mínu áliti er þetta enn eitt dæmið um að við þurfum að fara yfir (Forseti hringir.) eftirlitskerfið í heild sinni. Ég treysti því að full (Forseti hringir.) samstaða sé um það og vona að við fáum niðurstöðu í deilu þessara tveggja stjórnarliða, (Forseti hringir.) hvor hefur rétt fyrir sér.