140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þegar maður horfir yfir þetta mál og tímalínu þess, finnst mér það einkennast mjög af athafnaleysi og ábyrgðarleysi. Við stöndum einmitt núna frammi fyrir því að menn benda töluvert hver á annan.

Þó að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hafi talað um að við ættum ekki að ræða um þetta sem vörur mundi ég hins vegar vilja benda á nokkur dæmi um það þegar vörur hafa verið innkallaðar, til dæmis hvernig Ikea hefur staðið að innköllun á gölluðum vörum hjá sér eða hvernig fyrirtækið Johnson & Johnson hefur ítrekað þurft að innkalla vörur hjá sér að undanförnu, og bera það síðan saman við viðbrögðin í þessu máli. Ég held að mun betra hefði verið ef við hefðum getað falið til dæmis Ikea að halda utan um þetta frekar en þeim opinberu aðilum sem hafa haldið utan um þetta hér, Ikea hefur til dæmis bara innkallað allar kaffikönnur og síðan sagt: Þú getur fengið aðra í staðinn og borgar ekkert fyrir.

Hér hafa menn hins vegar tvístigið og verið óvissir um hvað ætti nákvæmlega að gera og eftir viku frá því að málið kom upp voru menn ekki vissir um það. Í dag er búið að bjóða ómskoðun en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvað eigi að gera við þær konur sem ómskoðun leiðir í ljós að púðar leka ekki hjá, þrátt fyrir að fram hafi komið á fundi velferðarnefndar að ómskoðun er ekki fullkomin. Hún getur gefið til kynna að púðinn leki þó að hann leki ekki. Hún getur líka gefið til kynna að púðinn leki ekki þó að hann geri það.

Í þessu tilviki mundi ég gjarnan vilja að við færðum okkur aðeins fjær frændum okkar á Norðurlöndum og horfðum til Frakklands og Þýskalands og viðbragðanna í þeim löndum og gefum konum val, að þær sjálfar (Forseti hringir.) geti valið hvort fjarlægja eigi púðana og setja þá aðra í staðinn, frekar en að segja bara að fjarlægja eigi púðana. Leyfum konum að velja.