140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

viðbrögð heilbrigðisyfirvalda vegna frétta um iðnaðarsílikon í brjóstapúðum.

[15:13]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Það hefur verið áhugavert og lærdómsríkt að fylgjast með umræðunni í samfélaginu vegna PIP-hneykslisins. Í upphafi heyrði maður því jafnvel fleygt að þessar konur gætu bara sjálfum sér um kennt vegna eigin hégómleika. Sumir höfnuðu því að ríkið skipti sér af þessu máli, konurnar ættu bara að sækja rétt sinn sjálfar, því að þetta væri eitthvað einka og aðgerðir væru algjörlega ónauðsynlegar. Með sömu rökum gætum við náttúrlega skoðað stöðu þeirra sem hafa skaðað heilsu sína til dæmis með reykingum eða óhollu mataræði.

Sem betur fer virðast þessar raddir að mestu þagnaðar og ekki síst eftir að í ljós hefur komið hversu margir hafa brugðist og hvað þetta er í raun alvarlegt. Mér finnst sú ákvörðun, að tilkynna þeim konum ekki um hættuna eða hvað hafi gerst þegar í ljós kom í fyrra að um iðnaðarsílikon var að ræða, verulega ámælisverð. Sagt hefur verið að menn vildu ekki valda óþarfa umróti eða hræðslu hjá konunum en að þeir ætluðu að fylgjast vel með þeim. Mér þætti fróðlegt að vita með hvaða hætti það eftirlit átti að fara fram án þess að upplýsa konurnar um málið. Hvernig ætluðu menn að fylgjast með þessu? Það hlýtur alltaf að vera réttur sjúklinga að fá allar upplýsingar um þá meðferð sem þeir hafa gengist undir, ekki síst þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Í þessu máli finnst mér ríkið verða að taka af skarið og veita þeim konum sem eru fórnarlömb í málinu nauðsynlega þjónustu en reyna svo eftir fremsta megni að láta kostnaðinn lenda á þeim sem ábyrgð bera. Því miður eru stofnanir ríkisins þar ekki undanskildar. Þær bera líka ábyrgð á þessu.