140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

matvæli.

387. mál
[15:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um matvæli nr. 93/1995, á þingskjali 503, 387. mál þessa þings.

Hér er annars vegar um að ræða lagabreytingu sem heimilar Matvælastofnun aðgang að tilteknum upplýsingum úr tölvukerfum tollyfirvalda þannig að stofnunin geti sinnt eftirliti með innflutningi á matvælum og lifandi lagareldisdýrum í samræmi við viðkomandi EES-löggjöf.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur komist að þeirri niðurstöðu eftir eftirlitsheimsókn hingað til lands að Ísland uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 136/2004, þar sem eftirlitsaðilar hafi ekki aðgang að gagnagrunnum og öðrum upplýsingum tollyfirvalda um farmskrár. Í umræddri reglugerð er kveðið á um að lögbæra yfirvaldið hér á landi, Matvælastofnun, skuli hafa aðgang að gagnasöfnum tollyfirvalda. Markmiðið með rafrænum aðgangi farmskrárupplýsinga er að auka skilvirkni í innflutningseftirliti með heilbrigði dýraafurða og lifandi ferskvatns- og sjávareldisdýra. Gert er ráð fyrir að slíkur aðgangur hraði upplýsingaflæðinu og flýti þannig allri vinnu við umrætt innflutningseftirlit. Eftirlitsaðilar geta jafnframt gengið að traustum og haldgóðum upplýsingum um þennan innflutning meðal annars til að fyrirbyggja mistök og afstýra tilraunum til að komast hjá eftirliti.

Í ljósi framangreinds óskaði Matvælastofnun eftir því við embætti tollstjóra að embættið heimilaði aðgang að upplýsingum úr gagnasöfnum í vörslu embættisins. Embætti tollstjóra komst að þeirri niðurstöðu að hafna bæri þeirri beiðni meðal annars með vísan til þess að svo víðtækur og óheftur aðgangur verði að byggjast á traustum lagagrundvelli og vera samrýmanlegur lögum um persónuvernd og persónuupplýsingar.

Samkvæmt framansögðu er Matvælastofnun þannig nauðsynlegt að fá aðgang að farmskrárupplýsingum frá tollyfirvöldum til þess að framfylgja lögbundnu eftirlitshlutverki sínu. Því er lagt til í frumvarpi þessu að Matvælastofnun fái ótvíræðar lagaheimildir til þess að hafa rafrænan aðgang að farmskrárupplýsingum úr upplýsingakerfum tollyfirvalda vegna innflutningseftirlits með vörum frá ríkjum utan EES og vegna markaðseftirlits með vörum sem eru í frjálsu flæði á EES-svæðinu.

Nánar tiltekið næði heimild Matvælastofnunar til upplýsinga um sendingarnúmer, nafn sendanda og móttakanda sendingarinnar, vörutegund, hitastig afurða, stærð flutningseininga, magn í gámum, tegund umbúða, stærð pakkninga, heiti afurðanna, heildarþyngd sendinga og til annarra upplýsinga sem stofnunin þarf til að sinna eftirlitshlutverki sínu.

Í frumvarpinu er sérstaklega áréttað að Matvælastofnun og starfsmenn stofnunarinnar skuli meðhöndla upplýsingar sem koma frá tollyfirvöldum sem trúnaðarupplýsingar. Hafa verður í huga að Matvælastofnun er ríkisstofnun og starfsmenn hennar starfsmenn ríkisins sem gæta eiga þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt eiga að fara samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Rétt er að nefna að athugasemd ESA beinist einungis að framkvæmd innflutningseftirlits vegna ríkja utan EES. Í frumvarpi þessu er hins vegar óskað eftir víðtækari heimild, þ.e. rafrænum aðgangi upplýsinga, vegna innflutnings frá ríkjum utan EES-svæðisins og einnig innan EES-svæðisins. Ástæða þess er sú að erfitt getur reynst að einskorða rafrænar upplýsingar við innflutning frá ríkjum utan EES, auk þess sem rafrænn aðgangur almennt mun gera heilbrigðiseftirlitið skilvirkara, öruggara og betur til þess fallið að koma í veg fyrir markaðssetningu vöru sem ekki uppfyllir heilbrigðiskröfur.

Í frumvarpi þessu eru að hinu leytinu til lagðar til breytingar á kærufresti vegna stjórnsýsluákvarðana sem kærðar eru til æðra stjórnvalds samkvæmt lögum um matvæli og varða innflutningseftirlit. ESA hefur vakið athygli á þeirri staðreynd að íslensk yfirvöld uppfylla ekki reglur tilskipunar nr. 78 frá 1997, um förgun eða endursendingu afurða innan 60 daga. Í eftirlitsferð í janúar 2009 var gerð athugasemd við drátt á förgun eða endursendingu vöru og vakin athygli á því að íslensk yfirvöld uppfylltu ekki ákvæði tilskipunarinnar.

Ástæða þess að settur er 60 daga frestur vegna förgunar eða endursendingar vöru er sú að ekki er talið æskilegt að vörur sem hafnað hefur verið af heilbrigðisástæðum safnist upp í geymslum landamærastöðva og slíkar vörur séu geymdar innan um vörur sem uppfylla heilbrigðiskröfur löggjafarinnar og eru á leið inn í landið. Lengri frestur getur jafnframt leitt til þess að vörur sem hefur verið hafnað safnist upp í geymslum. Slíkt mundi kalla á stærra geymslurými en til staðar er í dag.

Fyrir liggur að ástæða þess að ekki er hægt að uppfylla skilyrði tilskipunarinnar að óbreyttu um 60 daga frestinn er sá frestur málsaðila til að kæra ákvörðun lægra setts stjórnvalds til æðra setts stjórnvalds sem er allt að þrír mánuðir í dag. Frestur tilskipunarinnar, þ.e. 60 daga fresturinn um förgun, er því í mörgum tilvikum liðinn þegar ákvörðun Matvælastofnunar er kærð til ráðuneytisins.

Í ljósi framangreinds er lagt til að kærufrestur vegna stjórnsýsluákvarðana sem teknar eru í tengslum við eftirlit með innflutningi dýraafurða og lifandi lagareldisdýra sem koma til landsins frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins verði styttur úr þremur mánuðum í fjórar vikur til að unnt sé að uppfylla ákvæði EES-löggjafarinnar að þessu leyti.

Ekki er gert ráð fyrir því að framangreind breyting á 30. gr. d laga nr. 93/1995, um matvæli, hindri eða takmarki möguleika aðila máls til þess að kæra stjórnsýsluákvarðanir enda vekur Matvælastofnun athygli málsaðila á heimild til að kæra og kærufresti þegar stjórnvaldsákvörðun er kynnt málsaðila bréflega.

Þá verður sömuleiðis að líta til þess að framangreind stytting á kærufresti er bundin við mjög takmörkuð tilvik, þ.e. einungis þar sem Matvælastofnun hefur tekið ákvörðun um réttindi og skyldur aðila í tengslum við eftirlit með innflutningi dýraafurða og lifandi ferskvatns- og sjávardýra sem koma til landsins frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í niðurlagi 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að ákvæði um lengri eða styttri kærufresti í sérlögum gangi framar hinu almenna ákvæði stjórnsýslulaga. Nokkur slík ákvæði má finna í lögum. Ég ætla að nefna eitt dæmi um slíkt.

Í 16. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, segir að mál skuli borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðunina. Í greinargerð eru færð þau rök fyrir þessum stytta kærufresti að hann sé sjálfsagður þar sem það séu yfirleitt hagsmunir þess sem óskar upplýsinga að fá skjóta úrlausn mála sinna. Því er ljóst, virðulegi forseti, að fordæmi eru fyrir öðrum ýmist lengri eða styttri kærufrestum en hin almenna regla stjórnsýslulaganna mælir fyrir um.

Í báðum þessum tilvikum tel ég að búið sé að ganga þannig frá málum að öll ákvæði viðeigandi laga séu uppfyllt og að komin sé ótvíræð og óumdeild lagastoð fyrir aðgangi Matvælastofnunar að gögnum frá tollinum. Sömuleiðis er um það búið að meðferð slíkra upplýsinga sem persónuupplýsinga verði vönduð og öll ákvæði eru uppfyllt í þeim efnum þannig að að þessum lögum settum ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að Matvælastofnun öðlaðist þennan aðgang.

Sama máli gegnir um seinna meginatriði frumvarpsins, eins og ég hef rökstutt í framsöguræðu þessari, að ekkert ætti að vera því að vanbúnaði að stytta þennan kærufrest þannig að betur sé hægt að uppfylla ákvæðin um að vörum sem ekki verður hleypt inn í landið eða sem ákveðið er að endursenda — að á því sé tekið innan nefndra 60 daga.

Virðulegi forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.