140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[15:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er fylgjandi þessu máli og legg til að frumvarpið verði að lögum. Ég hef sjaldan í minni stuttu þingsögu fengið jafnjákvæð viðbrögð við máli sem ég hef talað fyrir hér í þingsal og einmitt þessu frumvarpi.

Mig langar í ljósi orða hv. þingmanns að rekja hér sögu frá Bretlandi. Árið 2000 var fallið frá kröfu um einangrun gæludýra sem komu frá löndum Evrópusambandsins í Bretlandi ef skilyrðum um bólusetningu gegn hundaæði og staðfestingu með blóðsýni á að dýrið hefði myndað mótefni væri fullnægt. Metin var hætta á hvort fyrrnefndar breytingar mundu leiða til þess að hundaæði kæmi upp í Bretlandi og niðurstöður skýrslunnar voru þær að líkurnar mundu aukast töluvert en væru samt litlar. Búast mætti við einu tilfelli hundaæðis á hverjum 211 árum í stað 13 þúsund ára miðað við gildandi reglur eða í einu tilfelli af hverjum 9,8 milljónum innfluttra dýra. Þetta var niðurstaða bresku skýrslunnar. Enn fremur sagði skýrslan að breytingarnar gætu leitt til þess að einn einstaklingur gæti látið lífið af völdum hundaæðis á hverju 21 þúsund ári.

Verði það frumvarp sem hér er lagt fram að lögum munu gilda sambærilegar reglur varðandi hundaæði við innflutning gæludýra til Íslands og gilda í Bretlandi, en áætla má að árlega sé flutt u.þ.b. 200 sinnum fleiri gæludýr til Bretlands en Íslands.

Það má því leiða að því líkur að í íslensku skýrslunni mundu menn kalla fram þá niðurstöðu að búast mætti við því að einn einstaklingur gæti látið lífið af völdum hundaæðis á hverjum 4 milljónum ára. Í raun og veru eru líkurnar á því svo sáralitlar, virðulegi forseti, að ég tel að frumvarpið eigi að verða að lögum.