140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað mikið á ræðu mína. Ég sagði einmitt að heimurinn hefði ekkert breyst. En hv. þingmaður sagði að heimurinn hefði (Gripið fram í.) breyst, skoðanir hefðu breyst. Ísland hefur ekkert breyst. Það er eyja langt úti í Atlantshafi einangrað frá öllum öðrum svæðum. Það er ekki hægt að bera okkur saman við Norðurlöndin eða Bretland sem hafa lifað við allt aðrar tengingar og umferð dýra og manna á liðnum árum og áratugum, og þar af leiðandi að hluta til allt aðra sjúkdómastöðu, ekki síst hvað varðar Bretland.

Það er mikilvægt að horfa til landa eins og Nýja-Sjálands og Ástralíu sem leggja gríðarlega mikið á sig til þess að verja sína sjúkdómastöðu sem er mjög góð. Hún er það líka á Íslandi og við þurfum því að fara varlega í þessu máli. Það var það sem ég sagði og það er það sem ég mun ítreka í þessari stuttu ræðu, ég mun jafnframt leggja það á mig í nefndinni að halda þeim sjónarmiðum á lofti.