140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef samúð með málstað þeirra sem flytja þessa tillögu, en ég hef líka skilning á því sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði hér áðan. Hann er sá sem hefur mesta tæknilega þekkingu og reynslu af þessum málum.

Mínar spurningar eru tvær, þær eru tæknilegs eðlis. Í fyrsta lagi gat hann þess sjálfur að sögusagnir væru um að menn væru að hittast á götuhornum til að afhenda gæludýr, koma þeim þannig á milli. Af því tilefni vil ég rifja upp að við fáum árlega fregnir af því að gæludýrum sé smyglað til landsins og vafalítið vita margir þingmenn um það að slíkt viðgengst, jafnvel hvað varðar hunda og ketti. Menn hafa í daglegu lífi örugglega rekist á dæmi um það. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Felst ekki í slíkum svörtum markaði ákveðin hætta sem væri hægt að útrýma með því að heimila innflutning gæludýra samkvæmt ströngustu rannsóknum?

Önnur spurning mín er þessi: Telur hv. þingmaður, miðað við þá þekkingu og reynslu sem hann hefur í þessum fræðum, að sú geta sem er fyrir hendi í dag sé nægileg til þess að ganga úr skugga um það hvort tiltekið gæludýr sé haldið einhverjum sjúkdómum sem við viljum algjörlega forðast? Þá gef ég mér þær forsendur sem hv. þingmaður kann að vera mér ósammála um að eftirlit bregðist ekki heldur sé því stranglega framfylgt.

Í þriðja lagi er það spurning sem hefur stundum vaknað í mínum huga þegar þessi mál eru rædd, og ég er ekki að fara með flím gagnvart málinu, en hún er þessi: Er engin hætta á því að önnur dýr sem koma fyrir eigin flugafli og vindum, eins og fuglar í ótrúlegum grúa, geti borið smit til landsins? Við vitum báðir (Forseti hringir.) að ekki er hægt að stöðva það með vegabréfi, vottunum eða neinu öðru.