140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Þær sögusagnir, herra forseti, sem ég leyfði mér að setja fram hér, tengdar sendiráðum og slíku, voru ekki endilega á þann veg að verið væri að afhenda dýr, heldur skipulögðu menn að hittast á götuhornum til að framleiða fleiri dýr. Það eru sögusagnir. Eins smyglið, það eru líka sögusagnir. Allur innflutningur var bannaður, og ég held að þetta hafi einmitt verið svar við því. Í dag er innflutningur heimilaður samkvæmt ströngustu reglum og eftirliti. Hér hefur orðið gríðarleg fjölgun, bæði í tegundum og það er ekkert vandamál í sjálfu sér að sækja sér nýtt erfðaefni með því að fylgja þessum reglum.

Ég hef líka, eins og hæstv. utanríkisráðherra, fulla samúð með þeim sjónarmiðum sem koma fram í frumvarpinu og hjá þeim hagsmunahópum sem vilja gjarnan geta farið með gæludýrin sín til útlanda, jafnvel á sýningar eða eitthvað slíkt, og koma heim aftur. Ég hef fullan skilning á þessu. Ég er bara að vara við að hættan er allt of mikil. Og það hvort við getum ekki tryggt þetta með einhverjum hætti, að tilteknir sjúkdómar séu ekki til staðar, þá er það akkúrat vandinn. Þegar dýralæknastofnunin í Halle í Þýskalandi gaf út hið fína vottorð á karakúl-féð forðum daga var ekki vitað að í því voru bæði garnaveiki, sem tekur þó nokkur ár að koma fram, og seinvirkir smitandi vírussjúkdómar, latent-sjúkdómar, sem síðan komu fram miklu seinna eins og mæðuveiki og visna.

Þannig að við getum ekki garanterað neitt og þess vegna þurfum við að stíga varlega til jarðar, af því við erum einangruð eyja, af því okkur hefur tekist í gegnum aldirnar að verja stöðu búfjár og eins eru til þess að gera færri sjúkdómar hjá gæludýrum en er víðast annars staðar þó að þeim hafi vissulega fjölgað. Það er heldur ekki hægt að koma í veg fyrir að hér komi eitthvað inn með fuglum eða innflutningi, með tækjum og tólum. Það er ekki hægt að útiloka það.