140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar þetta mál kom fyrst inn í þingið, á síðasta þingi, hélt ég ræðu um það. Ég sá svo að ekkert yrði frekar úr því og verð að viðurkenna, herra forseti, að ég vonaðist til að við sæjum þetta vitleysismál ekki hér aftur, því að sjálfsögðu er það eina orðið sem má nota yfir þetta.

Ég vil hins vegar segja í upphafi að ég hef ákveðinn skilning á nokkrum hliðum er snúa að þessu máli, þ.e. varðandi þá sem þurfa á aðstoð dýra að halda svo sem þeir sem eru blindir, og jafnvel varðandi björgunarhunda og annað. Ég hef skilning á því að þetta er vandamál og það hlýtur að vera nokkuð heftandi að geta ekki farið með þessi nauðsynlegu dýr með sér landa á milli. En svo ég sé alveg hreinskilinn þá tel ég ekki að réttlætanlegt sé að taka þá áhættu að heimila innflutning á dýrum, gæludýrum, þó svo að þessi vonda staða sé uppi hjá ákveðnum hópum.

Það hefur komið hér ágætlega fram að reynsla okkar af dýravottorðum eða vegabréfum er ekkert sérstaklega góð. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson nefndi áðan sjúkdóma í sauðfé sem komu upp löngu eftir að sauðféð hafði verið flutt inn með öllum þeim stimplum sem hægt var að fá á þeim tíma og það átti að vera laust við sjúkdóma. Þetta eru sjúkdómar sem hafa síðan verið til mikilla vandræða á Íslandi.

Við höfum heyrt rök færð fyrir því að gæludýravegabréf taki ekki á öllum þeim sjúkdómum sem finnast í Evrópu þar sem þar eru ekki allir sjúkdómar skráðir eða eftirlitsskyldir, sjúkdómar sem ekki er að finna hér á landi. Þar af leiðandi mundu þeir væntanlega ekki koma fram í vegabréfinu, ef ég skil þetta rétt.

Það er því verið að fara af stað með mál sem felur að mínu viti í sér mikla áhættu fyrir gæludýraeigendur á Íslandi í dag, fyrir þá sem rækta gæludýr og fyrir búfénað, því að bent hefur verið á að möguleiki sé á því að smitleiðir séu þarna á milli.

Við ættum líka að gera ráð fyrir því að komi hér upp sjúkdómur í framhaldi af innflutningi á dýrum, hvort sem það eru gæludýr eða búfénaður, sé hætta á að það hafi áhrif á matvælaframleiðslu okkar. Ágætt dæmi um það er þegar hingað voru fluttar inn kartöflur frá einu landi Evrópusambandsins með svokölluðu hringroti í. Ég nefndi það í ræðu minni þegar málið kom fyrst fram að þetta hringrot varð hér að sjúkdómi í kartöflum og gerði að verkum að einn daginn máttum við ekki, að minnsta kosti ekki í fyrra þegar við vorum að ræða þetta mál, flytja út kartöflur til Evrópusambandsins vegna þess að það er að reyna að útrýma þessum sjúkdómi hjá sér.

Ég sé ekki endilega fyrir mér að við verðum stórir útflytjendur á kartöflum, en þetta er hins vegar dæmi um það að við flytjum inn varning eða afurð sem ber með sér leyndan sjúkdóm sem tekur sér síðan bólfestu hér, sem gerir það að verkum að við getum ekki flutt út þessa vöru. Hið sama hlýtur að eiga við um gæludýrin.

Það er vitanlega þannig að ekki er hægt að sjá fyrir alla sjúkdóma sem mögulegir eru þó svo að dýrin séu komin með vegabréfið og í umræðu um málið í fyrra var vitnað í viðtal við dr. Margréti Guðnadóttur, veirufræðing og fyrrverandi prófessor í sýklafræði, þar sem hún nefndi einmitt búfjársjúkdóma sem ekki var hægt að gera grein fyrir í vegabréfi.

Við hljótum að þurfa að staldra við þetta mál og að sjálfsögðu vænti ég þess að nefndin fari mjög vandlega yfir áhættuna sem verið er að taka.

Við þekkjum líka og það kom fram í viðtali sem ríkissjónvarpið tók við forsvarsmenn einangrunarstöðvarinnar í Hrísey, að hingað hafa komið dýr sem áttu að vera með pappíra í lagi. Á þeim fjórum vikum sem dýrin voru í einangrun hafi hins vegar komið í ljós að þeir voru einfaldlega ekki í lagi, pappírarnir sem fylgdu með stóðust ekki. Í svona tilfellum hafa því dýr verið send aftur úr landi.

Niðurstaða mín er kannski sú að ef við viljum reyna að minnka líkur á sjúkdómum eigum við að herða þær reglur sem fyrir eru. Við eigum að herða þær frekar en að slaka á þeim, eins og hv. þingmenn leggja til. Þar af leiðandi get ég ekki með nokkru móti tekið undir þetta frumvarp og kalla það bölvaða vitleysu, afsakið herra forseti að ég noti það orðalag, því að það er algjör óþarfi að taka einhverja áhættu með íslenskt dýralíf, hvort sem það eru gæludýr eða búfénaður.

Ég varð þess heiðurs njótandi, ef það má orða það þannig, að sitja einn rýnifund í utanríkisráðuneytinu þar sem fjallað var um innflutning á … (Gripið fram í: Af hverju komstu ekki á fleiri?) — þú bauðst mér ekki á fleiri — á lifandi búfé og plöntum. Þar kom fram að eindregin afstaða Íslands varðandi innflutning á dýrum og plöntum, að ekki skyldi rýmka fyrir honum, ég skildi það þannig, og ég vil þakka þeim embættismönnum utanríkisráðuneytisins sem þar voru fyrir að koma afstöðu Íslands skýrt á framfæri. Í framhaldinu spannst töluverð umræða um þetta hér á landi, sérstaklega varðandi plönturnar. Ég minnist akkúrat núna viðtals sem var tekið við sérfræðing hjá Matvælastofnun að ég held sem kvartaði yfir því að hafa lítið svigrúm til að sinna rannsóknum sínum og vænti þess að nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, taki sig til og auki það svigrúm. En það kom skýrt fram að það er veruleg hætta á ferðinni þegar við flytjum svona lifandi vörur eða hvernig á að orða það, plöntur og dýr, milli landa.

Það kom alveg skýrt fram á þessum rýnifundi og náungi sem heitir Wolf Martin Mayer, einn fulltrúa Evrópusambandsins á þessum fundi, orðaði það nákvæmlega þannig að þau væru ekki orðin 27 ríkin í Evrópusambandinu ef menn hefðu haft áhyggjur af dýrasjúkdómum, það væri ekki að stöðva vöxt sambandsins.

Herra forseti. Ég vil því enn og aftur vara sterklega við þessu frumvarpi. Ég hef ákveðna samúð og skilning á því er varðar björgunarhunda, blindrahunda og dýr sem fólk þarf sér til aðstoðar. Ég hef því miður enga patentlausn á þeim vanda, en vildi gjarnan hafa hana ef það yrði til þess að leysa málið með einhverjum hætti. En að opna fyrir þennan innflutning er algjörlega út í hött.