140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:29]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal spurningarnar. Það er alveg rétt að því meiri aukning sem verður á strandveiðikvóta, því líklegra er að bátum sem sækja strandveiðar muni fjölga. En það er misskilningur hjá hv. þingmanni að kvótinn í strandveiðum sé gefinn. Í 4. gr. b á bls. 3. í frumvarpinu segir:

„Handhafar strandveiðileyfis skulu greiða því sveitarfélagi þar sem þeir landa afla gjald, auðlindagjald, við löndun afla. Gjaldið skal lagt á miðað við hvert kíló landaðs sjávarafla. Fjárhæð gjaldsins skal miðast við meðalkílóverð síðasta þekkta uppboðsdags aflaheimilda í sveitarfélaginu.“

Menn geta sótt sjó með strandveiðum eins og þeim sýnist en þegar þeir landa aflanum þurfa þeir að borga veiðigjald af honum í samræmi við það verð sem gerist á markaði. Þetta er einfaldlega önnur útfærsla á því að menn bjóða ekki í kvóta og kaupa hann fyrir fram, heldur greiða af honum auðlindagjald eftir á.

Hvað varðar lántökur útgerða versus eigið fé þar sem eigið fé hverfur ef menn hafa lagt það fram til kaupa á kvóta má vissulega færa fyrir því rök, eins og þingmaðurinn gerði, að það sé óréttlátt að þeir sem hafa lagt fram eigið fé fái enga niðurfellingu en þeir sem hafa tekið lán fyrir kaupum á kvóta fái þau felld niður. Rök eru færð fyrir því að það þurfi að taka inn eiginfjárframlag líka og fella það niður vegna kaupa á kvóta. Þetta er leið sem við ákváðum að fara ekki vegna þess að menn hafa alltaf talað um að útgerðir hafi skuldsett sig svo mikið vegna kvótakaupa en það hefur lítið verið talað um að útgerðir hafi lagt fram mikið eigið fé í kvótakaupum. Ef það kemur hins vegar í ljós við nánari skoðun að svo sé er réttlætismál að skoða það nánar. Ég hefði ekkert á móti því.