140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

202. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var eiginlega ekki andsvar, frekar hugleiðingar og ég vil prjóna við þær vegna þess að það er ákveðin þróun í búsetu í öllum heiminum. Mér finnst eins og með frumvarpinu sé reynt að snúa við þeirri þróun, bakka út úr því sem er að gerast í heiminum og reyna að negla niður einhverja stöðu sem var einu sinni. Það getur verið ágætt að hafa slíka íhaldssemi að reyna að viðhalda gömlum háttum og öðru slíku og viðhalda byggð þar sem hún einu sinni var. Ég er ekki alveg viss um að það sé það besta sem við getum fengið en auðvitað þarf að skoða það.

Ég hygg að ofgnótt fjár á einum stað muni til dæmis hækka laun bæjarstjóra og auka lífeyrisréttindi og annað slíkt sem menn geta samið um. Það hefur sýnt sig víðar að þegar menn fá mikla peninga fara þeir út í einhverja vitleysu í fjárfestingum. Ég er dálítið hræddur við það þegar menn vilja snúa við 20 ára sögu og bakka til fyrri tíma, flestir íbúarnir eru fluttir, lítið við að vera og allt í einu flæðir allt í peningum. Allt í einu snúa menn til baka af öðrum ástæðum en þeirri að þarna sé byggðavænlegt. Menn flytja til baka vegna þess að menn fá mikla peninga út úr einhverju kerfi en ekki vegna þess að þarna sé skynsamlegt að reka útgerð, ferðaþjónustu eða eitthvað slíkt. Ég er dálítið hræddur við þess háttar hvata í efnahagslífinu. En það er eitthvað sem menn þurfa að skoða og kannski eru þau dæmi sem við sjáum hér ekki svo almenn.