140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

stjórn fiskveiða.

408. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða. Það kemur inn í ákveðna stöðu sem við upplifum núna, sem er ákveðin pólitísk deila eða pólitísk upplausn varðandi það hvert við stefnum með sjávarútveg okkar. Sjávarútvegskerfi okkar var sett á laggirnar 1984. Það er orðið æðilangt síðan og síðan hafa eiginlega verið deilur um það. Það var sett á sínum tíma sem neyðarráðstöfun vegna þess að menn óttuðust að það væri svo mikil ofveiði að fiskurinn mundi hverfa og þá mundu allir tapa og alveg sérstaklega þjóðarbúið. Útgerðin mundi tapa, sjómenn mundu tapa, staðirnir úti á landi mundu tapa og alveg sérstaklega þjóðarbúið ef fiskurinn kláraðist. Því hafa sumir sagt að almannavaldið sem stöðvaði þessa rányrkju eða þessi ósköp eigi ákveðinn rétt vegna þess að það bjargaði stöðunni. Fyrir utan það að menn hafa aldrei verið almennilega sáttir við það að takmarka kvótann og alls konar orð farið á kreik um hvernig menn geti selt fiskinn syndandi í sjónum o.s.frv.

Það sem gerðist var náttúrlega eins og alltaf gerist þegar settar eru takmarkanir á eitthvert kerfi að þá myndast verðmæti. Um leið og eitthvað er takmarkað verða þeir sem ekki hafa aðgang að kerfinu að borga fyrir það og það eru verðmætin sem myndast í kerfinu. Þeir sem fá réttinn geta svo selt réttinn ef framsal er leyft. Ef framsal er ekki leyft myndast samt sem áður verðmæti.

Þarna mynduðust mikil verðmæti og menn hafa séð ofsjónum yfir því. Það sem var verst í þessu er að þeir sem ráku sín fyrirtæki verst í útgerð, voru slóðar, og þeir neyddust til að selja fyrst og græddu heilmikið á því, þannig að það voru kannski slóðarnir sem græddu sem komu því orði á að þetta væru kvótagreifar. En hinir sem eftir sitja og aldrei seldu, sem eru 15–20% af útgerðum, hinir sem hafa aldrei selt sinn kvóta og alltaf veitt eru í rauninni ekki kvótagreifar í þeim skilningi að þeir hafi selt þessi verðmæti. Síðan féll þessi desemberdómur Hæstaréttar og úrskurður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá 2007 og það er ýmislegt sem maður veltir vöngum yfir hvort þetta kvótakerfi sé nægilega gott.

Ef við lítum á þetta frá sjónarhorni útgerðarmanna þá hafa þeir náttúrlega búið til þessi réttindi með því að taka áhættu með útgerð. Það er jú þekkt að útgerð hefur alltaf verið áhætta á Íslandi og alveg sérstaklega áður fyrr. Þannig bjuggu útgerðarmenn til þessi auðæfi og nú hafa þeir jafnvel í þessum samningaviðræðum, samningaleiðinni sem rætt hefur verið um, fallist á að greiða auðlindagjald og til viðbótar að teknar yrðu upp samningaviðræður um afnot af fiskveiðiauðlindinni, þ.e. þessi svokallaða samningaleið.

Auðlindagjaldið hefur þann stóra agnúa, frú forseti, að það eru eiginlega engin efri mörk frá því. Þarna er ríkisvaldið í rauninni að leggja á skatt, getur bara skattlagt atvinnugreinina nánast eins og því sýnist, enda sér maður að þetta gjald hefur hækkað mjög mikið og útgerðarmenn eru nokkuð óvarðir fyrir því. Þetta fer ekkert eftir markaðslögmálum eða neinu slíku.

Samningaleiðin er að því leyti slæm að hún hefur aldrei verið útfærð nákvæmlega, maður heyrði að fyrst ætti að gera samning til 15 ára og svo ætti að framlengja um átta ár og hvað tæki við þá? Það var algerlega óljóst og ég er nærri viss um að útgerðarmenn héldu að að loknum 23 árum fengju þeir kvótann áfram og hinir, andstæðingar kvótakerfisins, héldu að að loknum 23 árum mundi ríkið taka til sín kvótann. Þessi óvissa, um hvað gerist eftir 23 ár, er enn ekki leyst. Auðvitað líða þessi 23 ár einhvern veginn og þá standa menn aftur frammi fyrir þeim vanda hvað eigi að gera og sá vandi magnast eftir því sem sá tími nálgast.

Það er mikið fjör í tillögum um lausn á þessum vanda. Við ræddum áðan frumvarp Hreyfingarinnar um að flytja eignarhaldið til sveitarfélaganna, hér er lagt til að það fari til íbúa landsins og svo hefur hæstv. fjármálaráðherra tilkynnt að hann ætli sér að leysa vandann á þremur vikum. Það var reyndar fyrir fjórum vikum sem hann sagði það og það er ekki komið enn, en búist er við að það frumvarp líti dagsins ljós í febrúar og þá ættu menn að hafa úr nógu að moða til að leysa málin.

Á síðasta sumri komu fram tvö frumvörp, annað til bráðabirgða og hitt til lengri tíma. Annað var samþykkt en hitt ekki og mætti eiginlega þeim andbyr að það voru næstum allir óánægðir með það, þannig að það var ekki mjög gæfulegt og dálítið erfitt að sjá hvernig menn leysa vandann á þeim grunni.

Ef við lítum á rekstur útgerðar þá felst hún í alls konar áhættu. Fiskstofnar koma og fara. Straumar, veður og vindar o.s.frv. hafa áhrif, skip geta laskast, en sem betur fer er kannski ekki lengur um skipstöp að ræða þó að það gerist enn þá, því miður. Síðan er hin venjulega áhætta í rekstri með olíuverð, fiskverð og alls konar kostnað, netakostnað og annað slíkt. Það er heilmikil áhætta sem mætir einu sjávarútvegsfyrirtæki, útgerðarfyrirtæki. Til viðbótar við þessa áhættu er endalaus pólitísk áhætta sem útgerðin hefur staðið frammi fyrir frá því að kvótakerfið var tekið upp árið 1984 og hún felst í því að það er stöðugt verið að taka af útgerðinni kvótann.

Ég minni á að veiðiheimildir smábáta hafa stórvaxið á þessum tíma. Þegar ég kíkti á þetta fyrst veiddu smábátar 6 þús. tonn, þegar ég leit á það næst var þetta komið upp í 30 þús. tonn og síðast þegar ég leit á það var þetta komið upp í 60 þús. tonn. Ég veit ekki alveg hvað þetta er viðamikið núna en þetta er náttúrlega tekið af þeim útgerðarmönnum sem fengu úthlutað afla í upphafi. Það hlýtur að vera mjög sárt fyrir þá að horfa á eftir þeim afla og sérstaklega fyrir þá sem hafa keypt hann dýrum dómum að horfa á eftir þeim kvóta sigla svona um hendur stjórnmálamanna til annarra.

Svo er sitthvað fleira tekið. Það eru alls konar pottar sem kallaðir eru, svo er línuívilnunin, það var líka tekið af þeim og loks eru það strandveiðarnar frægu sem voru teknar, allt saman af svokölluðum kvótagreifum sem fengu úthlutað í upphafi eða hafa keypt kvóta síðan sem eru 80% af öllum útgerðarmönnum eða útgerðum. Þessi áhætta er umtalsverð hjá útgerðinni og menn vita aldrei, allan þann tíma sem liðinn er frá 1984 hafa menn aldrei vitað með vissu hvort þeir gætu fengið að veiða þann kvóta sem þeir hafa næstu 10 árin. Nánast það eina sem er visst hjá þeim er að þetta er alltaf í óvissu. Pólitíska óvissan kostar útgerðina óhemju og gerir það að verkum núna vegna þeirrar áherslu sem núverandi hæstv. ríkisstjórn leggur á að taka kvótann af útgerðinni að það er engin fjárfesting í útgerð sem er mjög skaðlegt fyrir landið í heild, skaðlegt fyrir atvinnustigið í landinu o.s.frv. Ég hugsa að ef menn skoðuðu upphaflega úthlutaðar veiðiheimildir eða útgerðir sem fengu úthlutað, hafi þær orðið fyrir meiri afskriftum af þeim kvóta sem þær fengu upphaflega úthlutað en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, en þar er bent á eina lausn sem verður rædd á eftir; að taka kvótann og dreifa honum á alla þjóðina á 40 árum. Ég hugsa að útgerðin hafi misst meira en það á þeim 27 árum frá því að kvótakerfinu var komið á.

Það er að mörgu að hyggja. Útgerðin hefur búið við óöryggi allan tímann og ef eitthvað skaðar fyrirtæki er það óvissa og óöryggi, jafnt útgerðarfyrirtæki sem önnur. Ekkert er betra fyrir fyrirtæki en öryggi og vissa. Það kemur fram í lægri vöxtum á lán, það kemur fram í minni kröfum á eigið fé, um arð og annað slíkt. Fyrir fyrirtæki er öryggi mjög mikilvægt. Á síðu 14 í greinargerð með frumvarpinu er tafla sem sýnir hvernig verðmæti aflahlutdeildar er sem fall af ávöxtunarkröfu og það sýnir sig að þegar ávöxtunarkrafan lækkar vex verðmæti kvótans mjög mikið. Ef verðmæti kvótans er eins og í dag, það kom fram áðan að leigukvóti er rúmar 300 kr. og varanlegur kvóti eitthvað um 3 þús. kr. — ég hef ekki séð nýjustu tölurnar en það er mjög lítil velta á þeim markaði — þá er ávöxtunarkrafan heil 10%, frú forseti, og við erum að tala um verðtryggða eign, því að hvað kemur upp úr sjónum? Það er fiskur og fiskur er matvara og matvara er inni í neysluvísitölu um allan heim og matvara hefur hækkað meira en flest annað sem heimilin kaupa. Það má því segja að þetta sé ekki bara verðtryggð eign heldur sé hún yfirverðtryggð, hún sé meira virði en verðtryggð eign. Þess vegna eru 10% vextir óheyrilega háir í dag.

Menn hafa talað hér mikið um ríki og þjóð og það er dálítið leiðigjörn umræða því að mjög margir leyfa sér, með réttu eða röngu, að segja að ríki sé sama og þjóð. Til eru ríki þar sem eru margar þjóðir eins og Belgía og svo eru önnur ríki þar sem þjóðin býr í mörgum ríkjum eins og Kúrdar. Það er ekkert sem segir að ríki sé sama og þjóð og ekkert sem segir, eins og í tillögum sem komu frá ríkisstjórninni síðast, að sjávarútvegsráðherra sé einhvers konar handhafi þjóðarinnar og komi fram fyrir hönd þjóðarinnar. Það er náttúrlega alveg út í bláinn Þess vegna lenda menn í því þegar talað er um þjóð og þjóðareign á kvóta, eins og stendur í 1. gr. frumvarpsins að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu auðlind í þjóðareign, að velta því fyrir sér hvað er þjóð. Þar getur maður byrjað á að tala um þá sem hafa íslenskan ríkisborgararétt. Það er hins vegar mjög slæm skilgreining, frú forseti. Fjöldi Íslendinga býr erlendis og hefur ekki komið til Íslands í háa herrans tíð en er samt með íslenskan ríkisborgararétt fyrir utan það að nýjasta þróun í veitingu ríkisborgararéttar getur þýtt að eftir fjórar kynslóðir geti einn maður verið með áttfaldan ríkisborgararétt eða sextánfaldan, það er orðin ákveðin verðbólga í ríkisfangi og ríkisborgararétti.

Það sem mér datt í hug þegar ég fór að velta því fyrir mér að skilgreina þjóð var að það væri einfaldlega fólk sem byggi á Íslandi, og til að aðgreina það nánar er það fólk sem býr á Íslandi, þ.e. íbúar landsins, og þeir sem hafa verið skattskyldir í fimm ár. Mér finnst það nokkuð góð skilgreining á þjóð. Þeir sem hafa verið skattskyldir á Íslandi í fimm ár eru í mínum huga þjóð í einhverjum skilningi og þá börnin þeirra líka.

Þá kem ég að því hvernig ég ætla mér að leysa þetta mál eða hvaða hugmynd kemur fram í þessu frumvarpi um að leysa þetta mál, þ.e. þessi átök um kvótann, átök milli útgerðarmanna eða eiginlega séreignarsinna og sameignarsinna, þetta eru átök. Sameignarsinnum vex nokkuð fiskur um hrygg. Það er alla vega komið á stefnu ríkisstjórnarinnar að taka kvótann af útgerðarmönnum á ákveðnu tímabili, afskriftareglan, og nú er spurningin hvort það sé skynsamlegt. Ef kvótinn er tekinn af útgerðinni og settur yfir til ríkisins sem fulltrúa þjóðarinnar þá gerist það að þeir sem stjórna ríkinu ráða þessum kvóta. Og hverjir skyldu stjórna ríkinu, frú forseti? Það er væntanlega ríkisstjórnin og hún er pólitísk og það er meiri hlutinn á bak við hana sem eru stjórnmálamenn. Það er sem sé verið að flytja völd yfir auðlindinni frá útgerðarmönnum til stjórnmálamanna sem þá ráðskast með hana og deila, setja í potta, setja í strandveiðar o.s.frv. og kaupa sér atkvæði, frú forseti. Þeir eru að kaupa sér atkvæði, við skulum bara horfast í augu við það alveg beint og nakið. Þess vegna er ég ekki viss um að það frumvarp sem ég flyt veki mikla gleði hjá stjórnmálamönnum vegna þess að það er eiginlega andstætt við stjórnmálamennina því að ég ætla að taka kvótann, taka hann frá útgerðarmönnum og taka hann frá stjórnmálamönnunum og setja hann til íbúanna. Ég ætla reyndar að gera það með þeim hætti gagnvart útgerðarmönnum að þeir muni jafnvel græða á því — ég kem inn á það á eftir. Ef þeir fá öryggi í staðinn og alveg sérstaklega ef þeir fá Jón og Gunnu í lið með sér, eins og gerist ef þessu er dreift á þjóðina, þá fara saman hagsmunir útgerðarinnar og þjóðarinnar. Þjóðin mun vilja að kvótinn sé mikils virði því að þá fær hún meira fyrir þann kvóta sem hún fær úthlutað á hverju einasta ári og þar með fá útgerðarmennirnir liðsauka í baráttunni við ríkisvaldið um fiskveiðistjórnina. Ég hugsa að þegar fram líða stundir, ég hef reyndar rætt við nokkra útgerðarmenn og þeir skilja það nokkuð vel að öryggið, sem felst í því að kvótinn er skilgreindur sem eign og þeir fá hinn almenna mann, almenning í landinu með sér sem fylgismenn, er meira virði en það sem tekið er af þeim.

Þá ætla ég að lýsa því hvernig þetta gerist. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að það sé ákveðin aflahlutdeild á Íslandi og hún sé 100%, það er heimildin til að veiða allan fisk á Íslandi í einhverjum skilningi, í þorskígildistonnum eða þorskígildiskílóum, og Hafró segir hve mikið megi veiða og hlutdeildin sem segir að allir sem mega veiða megi veiða 100%. Við skulum gefa okkur að einhver einn megi veiða 4%, þ.e. 40 prómill, og það sem frumvarpið gerir ráð fyrir er að fertugasta hluta þessarar hlutdeildar sé dreift á þjóðina. Það sé sem sagt tekið 1 prómill af útgerðinni sem á 4% og dreift á alla þjóðina. Þetta þýðir að einum fertugasta af allri hlutdeild eða öllum veiðum á Íslandi er dreift á 300 þúsund íbúa, sem ég geri ráð fyrir að séu 300 þúsund af því að það fækkar töluvert við það að menn þurfi að hafa búið í fimm ár á Íslandi, og eru skattskyldir. Skattskyldir er ekki það sama og að borga skatt. Menn geta verið skattfrjálsir þó að þeir séu skattskyldir, þeir þurfa ekki að borga neinn skatt en þeir eru skyldugir til að telja fram. Svo er gert ráð fyrir að börn þeirra sem eru skattskyldir fái líka hlutdeild þannig að fjögurra manna fjölskylda fær þá fjórar hlutdeildir.

Þegar tekin eru 2,5% af núverandi úthlutun eða 1/40 eru þetta um 23 kíló á hvert mannsbarn, sem hvert mannsbarn má veiða í 40 ár. Það má veiða þessi 23 kg í 40 ár. Af hverju vel ég 40 ár, frú forseti? Það er til að gefa útgerðinni eða þeim sem vilja stunda útgerð ákveðið öryggi. Þeir geta keypt sér veiðiheimildir til 40 ára ef þeir kæra sig um. Þær veiðiheimildir sem hver maður fær alltaf á hverju ári, alltaf til 40 ára, eru 1/40 og það þýðir að veiðiheimildum er úthlutað á hverju einasta ári, alltaf 1/40. Þegar fyrsta hluta er lokið eftir 40 ár hefst aftur næsta úthlutun þannig að þetta er endalaus úthlutun. Og allar hugleiðingar um að einhver ríkur Rússi eða Spánverji geti keypt upp allar veiðiheimildir eða ríkur Íslendingur eru fyrir bí vegna þess að hann þarf þá að kaupa á hverju einasta ári nýja úthlutun sem gerir það að verkum að það er ómögulegt að kvótinn safnist á fáar hendur, auk þess sem gert er ráð fyrir því að einungis 12% af veiðiheimildum megi vera í eigu eins aðila.

Hver einasti maður fær sem sé úthlutað á hverju ári 23 kílóum til 40 ára og verðmætið af því er svona um það bil 50 þús. kr. Það eru 50 þús. kr. miðað við núverandi stöðu. Það er viðbúið að varanlegar heimildir til 40 ára hækki í verði þegar þetta frumvarp verður samþykkt vegna þess að útgerðin skili meiri hagnaði af því að þessi úthlutun er algerlega frjáls. Veiðiheimildir verða algerlega frjálsar, þær eru ekki bundnar við skip, þær eru ekki bundnar við útgerð, þær eru ekki bundnar við neitt. Þetta er réttur sem menn eiga og þeir geta selt hann, þeir geta framselt hann, þeir geta leigt hann, veðsett hann, erft hann og hvað sem er. Þetta er algerlega frjálst og er skilgreint sem verðbréf og þannig næst eins mikil arðsemi út úr kerfinu og hægt er þjóðinni til hagsbóta.

Hverjir munu kaupa? Það eru einhverjir sem vilja safna upp heimildum og mynda kvótasjóð til að selja seinna, hafa trú á því að fiskveiðiheimildirnar séu góð fjárfesting. Það verða útgerðir sem kaupa og það verða jafnvel einstaklingar sem geyma sinn eigin kvóta í þennan tíma og á hverju ári mundu þeir selja þá hlutdeild sem þá verður úthlutað, því að á þessum 40 árum verður þessu á hverju ári breytt yfir í aflamark einu sinni á ári og þá minnkar alltaf hlutinn, menn eiga fyrst til 40 ára, svo til 39 ára o.s.frv.

Hvað er ætlunin að gera við núverandi útgerðarmenn? Jú, þeirra hlutdeild er tekin og henni skipt í 40 parta, einn partinn mega þeir veiða í eitt ár og þá er honum úthlutað, annan partinn mega þeir veiða í tvö ár og þá er honum úthlutað, þriðja partinn í þrjú ár o.s.frv. Síðasta partinn mega þeir halda í 40 ár og þá verður honum úthlutað. Eftir 40 ár verður útgerðin búin að missa síðasta hluta sinn af núverandi kvótaeign. Sama gerist líka ef menn vinna nýjar tegundir eins og makríl eða eitthvað slíkt, hörpuskel, þá fengju menn með nákvæmlega sama hætti að veiða það í 40 ár afskrifað.

Af hverju ættu útgerðarmenn að vera hrifnir af svona kerfi þar sem kvótinn er tekinn af þeim? Það er vegna þess að þetta verður skilgreint sem verðbréf. Það er ekki nokkur leið að taka það af þeim eftir að slíkt frumvarp hefur verið samþykkt. Þetta er orðin örugg eign sem þeir geta gert við það sem þeir vilja, þeir geta hætt útgerð og selt sínar veiðiheimildir eða aflahlutdeild. Þeir geta sett þetta í kvótasjóð, þeir geta gert við þetta hvað sem þeir vilja. Þetta er það sem ég býð útgerðarmönnum, í staðinn fyrir að taka af þeim 2,5% á ári býð ég þeim að fá að gera við þetta nánast hvað sem er. Þó eru takmarkanir um að enginn megi eiga meira en 12% af árlegum veiðiheimildum og útlendingar megi ekki eiga þessar veiðiheimildir.

Það sem gerist fyrir venjulega útgerð er að allt í einu breytist óvissan, þessi pólitíska óvissa, yfir í vissu. Það er búið að samþykkja að þetta sé verðbréf, þetta sé eign þeirra, þeir megi halda henni í 40 ár og þetta er orðin vissa. Þeir geta gengið út frá því í öllum sínum áætlunum að þessari hlutdeild af öllum afla á Íslandsmiðum halda þeir í 40 ár, alltaf síminnkandi. Þegar Jón og Gunna, sem fá úthlutað á hverju ári 1/40 af öllum veiðiheimildum, byrja að selja sínar veiðiheimildir munu þau geta selt þær því hærra verði sem útgerðin gengur betur. Ef útgerðin gengur glimrandi vel eitthvert árið, mikil framlegð, mikill hagnaður og hátt verð erlendis, mikil veiði o.s.frv. og fiskstofnarnir stækka, mun hlutdeildin vaxa í verði. Ég hugsa að þar sem öryggi er hluti af forsendum þess að menn geti rekið fyrirtæki vel muni útgerðarfyrirtæki verða rekin miklu betur eftir að þetta kerfi er tekið upp en áður og munu þess vegna geta borgað hærra verð. Jón og Gunna verða ánægð og hrifin og standa með útgerðinni og það er kannski það sem mun breytast og verða veigamesta breytingin í þessu kerfi.

Ég hef verið spurður að þessu: Af hverju 40 ár? 40 ár þýða að meðaltíminn sem útgerðin í dag má hafa kvótann yrði að meðaltali í 20,5 ár og það er held ég það lægsta sem við getum farið niður í tímalengd sem útgerðin getur verið sátt við. Ef við færum niður í eitt ár, að menn héldu kvótanum í eitt ár, yrði engin fjárfesting í útgerð og fáir mundu stunda útgerð upp á þau býti. Þegar þeir geta haft hann í 40 ár, að meðaltali 20–20,5 ár, hygg ég að hvati manna til að fjárfesta verði umtalsvert mikill hjá útgerðinni.

Þegar menn ætla að leysa vandamál eða deilur tveggja aðila þýðir ekkert að leysa deilurnar þannig að annar aðilinn fái allt sitt, það þarf að hugsa um báða aðilana. Þess vegna er frumvarpið töluvert mikið sniðið inn á það hvernig þetta kemur við útgerðina en líka til að koma inn á það sjónarmið eins og stendur í 1. gr. í dag: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru auðlind í þjóðareign.“ Með því að dreifa þessu á þjóðina er þetta raunverulega orðin þjóðareign. Allt í einu fara íbúar um allt land að hafa mikinn áhuga á því hvernig útgerðin gengur o.s.frv.

Það má líka segja að það að einstaklingurinn fái 50 þús. kr. á ári sé ákveðið lýðræði, það er ákveðinn vöxtur í lýðræði vegna þess að þá getur hver og einn Íslendingur haft áhrif á það hvort hann vilji selja, hvort hann vilji veiða, hvort hann vilji leigja eða veðsetja. Hann hefur áhrif á hvernig þróunin verður í sjávarútvegi og það má segja að það sé vaxandi lýðræði, að þetta kerfi búi til nýtt lýðræði.

Mikið hefur verið rætt um sjávarbyggðir og það er ljóst að fjölmennustu byggðir í landinu, þ.e. Reykjavíkursvæðið, fengju mest út úr þessu kerfi en sjávarbyggðir þar sem er blómleg útgerð í dag gætu notað þann arð sem þar kemur í land, og það er umtalsverður arður af útgerð, til að kaupa sig inn í kvótasjóði eða jafnvel kaupa aflaheimildir af íbúum alls staðar á landinu þannig að þær geta búið sig undir mögru árin með þeim hætti. Það sem þetta kerfi leiðir til, frú forseti, er að sá sem getur veitt ódýrast og selt dýrast getur boðið mest í aflaheimildir og hann muni gera það. Þetta kerfi mun leiða til eins mikillar arðsemi í sjávarútvegi og mögulegt er og það yrði þjóðinni til hagsbóta og öllu atvinnulífinu.

Menn geta velt því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefði á ríkissjóð. Gert er ráð fyrir því að veiðigjaldið hverfi þannig að þar missir ríkissjóður töluverðar tekjur, en hins vegar má segja að ef hver einasti íbúi á landinu fengi 50 þús. kr. á ári að minnsta kosti hefði það í för með sér að minni þörf yrði fyrir til dæmis barnalífeyri. Ef hjón með tvö börn fengju 200 þús. kr. á ári yrði minni þörf fyrir barnalífeyri, minni þörf fyrir örorkulífeyri og ellilífeyri þannig að kröfur um eingreiðslur minnka til framfærslu vegna þess að fólkið fær fjármagn þarna. Síðan mætti líka hugleiða að lækka persónufrádráttinn sem er eins konar neikvæður nefskattur sem þetta gjald gæti komið á móti. En ég hygg að aukin arðsemi í sjávarútvegi, mikill hvati til fjárfestinga og framtíðarsýn sem byggir á því að menn hafi mikið öryggi til framtíðar geri það að verkum að arðsemi útgerðarinnar aukist og þær muni borga hærri skatta til ríkissjóðs en þær hafa gert hingað til.

Mikið hefur verið talað í umræðunni um framsal sem byggir mikið á misskilningi en líka á því að menn vilja halda einhvern veginn í kvótann. Þeim finnst óeðlilegt að menn geti leigt frá sér kvóta og þeim finnst óeðlilegt að menn geti selt kvóta vegna þess að það er ekki sátt um eignarhaldið. Um leið og svona frumvarp er komið fram þar sem kvótanum er dreift á þjóðina er komið á hreint hver er eigandinn. Þá munu allar kröfur um takmörkun á framsali hverfa, enda gerir frumvarp þetta ráð fyrir því að framsal sé algerlega frjálst og ekki einu sinni bundið við útgerð, þ.e. að aflahlutdeild sé bara réttur sem menn eiga og geta selt, framselt eða leigt eða erft. Þær kvaðir og hömlur sem eru í dag á framsali og allt það regluverk sem er í kringum útgerðirnar geta þess vegna horfið. Auk þess er lagt til að útgerðin verði eins og hver önnur atvinnugrein og engar sérreglur gildi um útgerð eftir þessa breytingu.