140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vildi draga athygli þingsins að sama máli og hv. þm. Bjarni Benediktsson tók hér upp áðan og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar tæpti á. Það er mjög mikilvægt að taka eldsneytisgjöldin og skattheimtuna í gegn til endurskoðunar. Eldsneytiskostnaður er mjög íþyngjandi, sérstaklega fyrir landsbyggðina, fólk sem þarf að keyra daglega tugi kílómetra til vinnu og hefur enga aðra valkosti um að koma sér til og frá vinnu og annarra hluta en að nota einkabílinn. Þar eru engar almenningssamgöngur til að grípa til til að létta á kostnaðinum eins og mögulega hér á höfuðborgarsvæðinu. Þó að eldsneytisverðið ráðist að mestu af stöðu gengis og heimsmarkaðsverði er mikilvægt að mæta því ástandi sem uppi er og endurskoða fyrirkomulag skattheimtu á eldsneyti eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi.

Samkvæmt spá Seðlabankans verður 3,1% hagvöxtur á þessu ári. Við eigum að nota hluta þess bata til að draga úr álögum á eldsneyti og þar með álögum á landsbyggðina á Íslandi. Staðan eins og hún er núna er ekki viðunandi og það er mikilvægt að fara í gegnum samsetningu gjalda og skatta á eldsneyti og leita allra leiða til að draga úr því verði sem er í miklum himinhæðum. Þetta hefur gífurleg áhrif á stöðu heimilanna og sérstaklega í hinum dreifðu byggðum úti á landi þar sem ekki eru aðrir valkostir til ferðalaga en einkabíllinn.

Hitt sem ég vildi nefna og taka undir með hv. þm. Magnúsi Orra Schram er að langstærsta einstaka ákvörðunin sem hefur verið tekin á þessu kjörtímabili af sitjandi meiri hluta á Alþingi var að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þar felst langtímalausnin út úr þeim gjaldmiðilsvanda sem við sjáum hér á öllum sviðum. Þar til að sá vandi hefur verið leystur til lengri tíma þurfum við að mæta einstökum atriðum eins og eldsneytisverðinu með þeim hætti sem ég nefndi. (Forseti hringir.)