140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

lagning raflína í jörð.

402. mál
[15:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Að stofni til er þetta tillaga sem hv. þm. Helgi Hjörvar flutti fyrir einum fimm árum. Ég vil nota tækifærið og þakka honum fyrir þá framsýni sem þar var að baki. Tillagan hefði betur verið samþykkt þá því að þá værum við ef til vill komin með eitthvað sem líktist stefnu í þessum mikilvægu málum á landi þar sem raflínur geta verið óvenjuskæðar fyrir umhverfi, náttúruupplifun og ferðamennsku.

Þess er ekki að dyljast að tillagan á sér ákveðnar forsendur í atburðum samtímans, nefnilega þeim þegar Landsnet neitaði að taka nokkurt tillit til óskar sveitarfélagsins í Vogum á Vatnsleysuströnd um línulagningu í jörð, vegna þess að engin opinber stefna væri til um það mál. Hér stígum við fyrsta skrefið að því. Ég vona að það verði heillaskref hjá okkur á þinginu.