140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

lagning raflína í jörð.

402. mál
[15:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er skemmtilegt fyrir þann hv. þingmann sem hér stendur að hafa tekið upp sjónmengunarmál hér í þinginu, [Hlátur í þingsal.] að hafa sýnt þá framsýni, eins og síðasti hv. þingmaður nefndi. Ég þakka þingmönnum úr öllum flokkum sem áttu aðild að því frumkvæði með mér. Ég held að það sé um þetta svið eins og önnur að mikilvægt sé að við höfum stefnu í því en þar höfum við enga stefnu haft. Ég held að með því að marka stefnu um hvaða línur skuli leggja og hvar og hvenær skuli leggja þær í jörð og hvenær í lofti geti orðið til þess að stuðla að meiri friði um ýmis framkvæmdaáform og atvinnuuppbyggingu í landinu en verið hefur og greitt þannig fyrir eflingu lífskjara og hagvaxtar í landinu.