140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að margar leiðir opnast einmitt til þess að gera það sem hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu. Ég tek undir að það er mikilvægt að menn ræði málið á þeim nótum og ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoði þetta sérstaklega til að meta hvar þörfin er þannig að við sjáum svona inn í fjarskann. Þegar við vorum að ræða þessa hluti í umræðu tveggja frumvarpa um hlutafélögin var þessu frestað þar sem menn ætluðu sér að taka þetta upp og sjá hver hugsanlegur kostnaður gæti orðið o.s.frv. Ég fagna því að hv. þingmaður, sem á sæti í umhverfis- og samgöngunefnd, vilji skoða þetta sérstaklega.

Ég ítreka þó af því mér hefur fundist bera töluvert á misskilningi í umræðunni þegar kemur að þessum vegaframkvæmdum, svokölluðum einkaframkvæmdum, annars vegar stofnbrautunum þremur sem var talað um að mundi kosta 160–180 kr. að keyra hvora leið og hins vegar Vaðlaheiðargöngum, af því að í mínum huga er það alveg skýrt að íbúar þess svæðis sem stóð til boða að fara þessa leið með stofnbrautirnar þrjár höfnuðu því. Íbúar á Norðurlandi eystra sem eiga að greiða veggjöld í gegnum Vaðlaheiðargöng neituðu því aftur á móti ekki heldur hvöttu til þess að haldið yrði áfram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Þegar Hvalfjarðargöng voru boruð var farin sú leið að taka af vegafé kjördæmisins, þ.e. fyrir svokallaða vegskála og lagningu að göngunum, sem var töluverður kostnaður. Nú er það ekki inni í myndinni í kringum Vaðlaheiðargöng. Telur hv. þingmaður það þess vert að skoða það í ljósi þeirra efasemda sem menn hafa um að styrkja framlag í verkefnið? Verður skoðað sérstaklega í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hvort sá möguleiki komi til greina að taka af kjördæmafénu fyrir þeim framkvæmdum eins og gert var við Hvalfjarðargöng?