140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota þann tíma sem ég hef í seinni ræðu minni í fyrri umr. um samgönguáætlun til að hnykkja á nokkrum atriðum sem ég náði ekki að fara nógu vel yfir í fyrri ræðu minni.

Ég verð þó að byrja á því að ítreka vonbrigði mín, mikil vonbrigði, með það hvernig þessi áætlun kemur inn gagnvart samgönguráði og innanríkisráðuneytinu að því leyti til að forsenda og sátt skapaðist um tillöguna sem var samþykkt vorið 2010 en nú er ekki tekið tillit til þeirra áherslna sem komu þar klárlega fram. Ég vil nefna sérstaklega tvö verkefni, annars vegar veginn um Fróðárheiði og hins vegar veginn um Öxi, sem var hluti af því samkomulagi sem náðist um hér og þeirri afgreiðslu sem varð í þinginu. Ég tel, virðulegi forseti, að þar endurspeglist algjörlega vilji og áherslur þingsins til uppbyggingar í vegakerfinu.

Í nefndarálitinu sem ég vísa til kemur mjög skýrt fram það óréttlæti sem á sér stað þegar framkvæmdir, svokallaðar mótvægisframkvæmdir vegna niðurskurðar á þorskafla 2007, skuli ekki ganga eftir en aðrar kláraðar. Það sjá það að sjálfsögðu allir. Þess vegna hlýt ég að spyrja hvort samgönguráð og innanríkisráðuneytið taki ekkert mark á afgreiðslu þingsins sem varð á þeim tíma. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að þeirri spurningu sé svarað.

Ég vil líka ítreka það sem ég hef sagt áður um uppbyggingu tengivega. Það var skilningur nefndarinnar að mjög mikilvægt væri að leggja til aukið fjármagn til tengiveganna. Það er líka niðurstaða samgönguráðs, það kom fram hér í fyrri umræðu, mikilvægi þess að auka fjárveitingu til málaflokksins. Hún er reyndar aukin úr 380 millj. kr. upp í 500 millj. kr. núna á milli þessara tveggja ára, það er jú hænuskref, en ég tel mikilvægt að það sé enn frekar bætt við þennan flokk, þ.e. í svokallaða tengivegi, til að við getum einmitt farið að byggja upp þá vegi sem eru illa farnir og hafa drabbast niður í viðhaldi á undanförnum árum vegna niðurskurðar á því sviði.

Eins vil ég ítreka það sem kom fram, þ.e. þá breytingu í samgönguáætluninni fyrir vorið 2010 þar sem samþykkt var að byggja vegina upp úr drullunni, ekki setja þá upp í 90 km hámarkshraða heldur laga þá eins og þeir eru með þeim hætti að hægt sé að keyra þá, setja á þá bundið slitlag, og þá komumst við í raun og veru rúmlega tvo kílómetra fyrir einn. Það tel ég mikilvægt að gera.

Síðan vil ég nefna að lokum Uxahryggjaleið. Menn tala mikið um hvernig eigi að standa að uppbyggingu ferðaþjónustu. Lagðar eru fram sóknaráætlanir, þingsályktunartillaga um byggðaáætlun og þar fram eftir götunum en svo er ekkert samræmi í því sem verið er að gera. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að hv. samgöngunefnd skoði hvar sá vegur er staddur vegna þess að gríðarlega mikil uppbygging er í ferðaþjónustunni á því svæði. Það mætti létta af þeim stofnbrautum sem verið er að beina umferðinni inn á, t.d. yfir sumartímann. Þegar fólk er komið til Þingvalla er mjög stutt að fara norður yfir, eins allir vita, í staðinn fyrir að fólk snúi við og keyri síðan til baka á stofnbrautirnar sem þegar eru oflestaðar. Ég held að mikilvægt sé að skoða þetta sérstaklega.

Síðan vil ég velta einu upp í þessari umræðu: Það eru allir sammála um að samgönguáætlunin er svona þvert á kjarasamningana sem voru gerðir á síðasta ári. Þeir voru mjög framhlaðnir en samgönguáætlunin er mjög afturhlaðin, þ.e. að framkvæmdaféð er aukið um 50% eftir fjögur ár og svo á seinni hluta tímabilsins, á þriðja tímabilinu, er búið að tvöfalda framlagið. Og af því að ekki eru deilur um að fjármagnið til uppbyggingar á stofnbrautunum er mjög lágt, þá velti ég því fyrir mér að fari svo að snjómoksturinn fari fram úr áætlun — sem ég tel hugsanlega einhverjar líkur á, án þess að ég þekki það sérstaklega, við þær aðstæður sem við búum við á þessum vetri — tel ég mikilvægt að samstaða myndist um það hér í þinginu að nýtt fjármagn komi inn, annaðhvort í gegnum fjáraukalögin eða þá í gegnum svokallaðan óvæntan og ófyrirséðan lið í fjármálaráðuneytinu, þó að túlka megi það svo sem með þeim hætti að það eigi kannski ekki beint heima þar undir.

Ég ítreka það enn og aftur að ef kostnaðaraukning hefur orðið í snjómokstri verði það ekki dregið af heildarframlaginu til Vegagerðarinnar því að þar er ekki borð fyrir báru.