140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Meginveikleiki þeirra samgönguáætlana sem við ræðum er í því fólginn hversu afturhlaðin áætlunin er. Ég fór yfir það rækilega við fyrri ræðu mína í þessari umræðu að þannig er að á fyrsta tímabilinu er gert ráð fyrir að stofnkostnaður alls sé 21 milljarður, á næsta tímabili 33 milljarðar og á því síðasta 44 milljarðar. Þess vegna finnst mér þessi áætlun ekki vera bjartsýnisáætlun. Við rekum okkur náttúrlega á þann stóra vegg sem er fjármagnsleysið, skort á fjármagni til að fara í nauðsynlegar framkvæmdir sem þurfa að eiga sér stað hið fyrsta.

Vitaskuld gerum við okkur grein fyrir því að ramminn er þröngur en þarna held ég að óhjákvæmilegt sé að menn skoði þessi mál upp á nýtt í margvíslegu ljósi. Það sem verið er að boða okkur á seinni tímabilunum er ekki nema fugl í skógi. Við vitum ekkert hvort líklegt sé að þetta verði. Við vitum ekki neitt hvernig staðan verður eftir fjögur eða átta ár. Þess vegna er þetta miklu frekar eins konar óskalisti en í raun og veru framkvæmdaáætlun sem við erum fullviss um á þessari stundu að við getum staðið við.

Við sjáum það líka í þessum áætlunum að verið er að taka öll stóru verkefnin, dýru verkefnin, og þeim ýtt inn á síðustu tímabilin, að hluta til inn á annað tímabilið en alveg sérstaklega inn á þriðja tímabilið, eins og við sjáum til dæmis með Dýrafjarðargöngin, Dynjandisheiðina og lok Vestfjarðavegar 60, sem samt er sagt að sé sérstakt áhersluatriði í þessum samgönguáætlunum. Öllum þessum stóru verkefnum er ýtt inn á síðasta tímabilið eða að minnsta kosti lyktir þess sjáum við á síðasta tímabilinu. Þetta er svo alvarlegt og svo niðurdrepandi fyrir þá sem hafa haft uppi miklar væntingar um að við gætum verið að sjá mögulegar alvöruframfarir í uppbyggingu vega þar sem þeirra er mikil þörf.

Ég vil líka undirstrika það sem mér finnst skipta gríðarlega miklu máli og það er að við reynum að auka frekar áhersluna á tengivegina. Það höfum við stundum verið að segja og stundum hefur það gengið eftir. Og það er sannarlega viðleitni í samgönguáætluninni, verið er að hækka framlagið úr 380 millj. kr. á ári upp í 500 millj. kr. En ég veit líka eins og kom fram að samgönguráð hafði lagt til að þessi tala yrði ekki 500 milljónir heldur 1 milljarður, þúsund milljónir, og það mundi auðvitað skipta gífurlega miklu máli.

Við skulum ekki gleyma því að miklar breytingar hafa orðið sem kalla bókstaflega á að þessi áherslubreyting eigi sér stað. Í fyrsta lagi eru þessir vegir nýttir miklu meira en áður. Þjóðfélagsbreytingarnar hafa gert það að verkum. Fólk sækir vinnu um lengri veg, fólk býr kannski í dreifbýli, sækir vinnu að hluta til eða öllu leyti í þéttbýlið og þarf að nota þessa vegi. Það hefur líka átt sér stað mikil uppbygging í ferðaþjónustu, guði sé lof, víða úti um landið og þá eru það einmitt tengivegirnir sem eru nýttir af ferðamönnunum. Við sjáum tölur um umferðarmagn á tengivegum, ég tek Vatnsnesið í Húnavatnssýslu og veginn fram gamla Lýtingsstaðahreppinn í Skagafirði sem mjög góð dæmi um það þar sem ótrúlega mikil umferð er og það endurspeglar ekki síst þennan vöxt í ferðaþjónustunni.

Það eru líka rök í málinu að verkefni af þessu tagi eru mjög atvinnuskapandi, skipta miklu máli, ekki síst fyrir litla verktaka sem núna eru algjörlega sveltir. Við vitum sem betur fer að fram undan eru einhver stór verkefni sem verða boðin út en þar er ég hræddur um að litlu verktakarnir eigi ekki mikla möguleika.

Síðan er það hitt að við höfum tekið þá ákvörðun að byggja þessa vegi upp með öðrum hætti. Ekki er gert ráð fyrir að þeir séu byggðir upp með fullum burði og þess vegna eru þeir ódýrari en um leið gerir það að verkum að við munum sjá fleiri kílómetra lagða með bundnu slitlagi á þeim vegum en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Að lokum vil ég segja eitt. Ég fagna því mjög að í þarnæstu viku verður boðinn út stór og myndarlegur kafli á Vestfjarðavegi 60, loksins, loksins. Það mun verða mjög mikilvægt verkefni, það mun skipta miklu í samgöngulegri uppbyggingu á því svæði sem við mörg hver höfum verið að kalla eftir hvað eftir annað úr ræðustóli Alþingis. En það er líka annað sem skiptir máli og það er að núna höfum við fram undan kannski tvö ár til að gera klárt fyrir næstu áfanga á Vestfjarðavegi 60. Það er ekki langur tími, sá tími líður hratt. Þá þurfum við að taka stórar ákvarðanir. Fyrir liggur, eins og málin hafa þróast, að leiðin um gömlu Gufudalssveitina verður dýrari í uppbyggingu en við höfðum gert (Forseti hringir.) ráð fyrir, B-leiðin er út af borðinu að því er virðist. Og nú er verið að tala um kosti sem kosta kannski 50% meira en við höfðum áður talað um og þá verða menn að gera sér grein fyrir — (Forseti hringir.) ég sé að í þessari áætlun er gert ráð fyrir að klára það verk fyrst á árinu 2019–2022.