140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla kannski að ræða þessi mál, samgöngumálin, út frá svolítið öðrum forsendum en almennt hefur verið gert í þessum sölum og kannski í samfélaginu. Við þekkjum það, virðulegi forseti, að stór eða stærsti hluti umræðunnar, og kannski lunginn, er ákveðinn kjördæmanúningur. Hér benda menn á þá staði sem þeir þekkja best og umbjóðendur þeirra eru í og ekkert óeðlilegt við það. Menn krefjast þess og færa rök fyrir því að mikilvægt sé að koma á samgöngubótum á þeim stöðum.

Virðulegi forseti. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að koma hingað í andsvar við mig og svara þeirri spurningu sem ég legg fram og er einfaldlega þessi: Er möguleiki á því að hæstv. ráðherra fari í þá vegferð með mér og fleirum að setja umferðaröryggismálin í forgang?

Umferðaröryggismál eru mál allra landsmanna. Það skiptir engu máli hvar við búum, það er alltaf jafnalvarlegt þegar einhver lendir í umferðarslysi. Margir halda að umferðarslys séu eingöngu vegna þess að ökumenn fari óvarlega. Það er svo sannarlega þáttur sem við getum aldrei haft stjórn á. Við getum reynt að undirbúa ökumenn undir að taka þátt í umferðinni, við getum verið með fræðslu og kennslu og annað slíkt, en það er margsannað mál og viðurkennt úti um allan heim að hönnun umferðarmannvirkja hefur mjög mikið um það að segja hvort slys verði, og ef að slys verða hvernig þau verða.

Virðulegi forseti. Fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra tók áskorun minni frá árinu 2005, ef ég man rétt, en þá fór ég fram á það við þann hæstv. samgönguráðherra, Sturlu Böðvarsson, að hann mundi setja af stað ákveðið verkefni sem heitir EuroRap og er samevrópskt öryggiskerfi þar sem menn taka út vegi eftir ákveðnum stöðlum sem eiga við alls staðar. Búið er að taka út vegi með þessari aðferðafræði, ekki bara á Íslandi, ekki bara í Evrópu heldur um allan heim, í Afríku, Asíu, Ameríku og á hinum ýmsu stöðum. Við erum, ef ég man rétt, búin að taka út um fjögur þúsund vegi á Íslandi, ég tala nú eftir minni. Við erum með upplýsingar um hvaða vegir eru hættulegastir. Við höfum líka upplýsingar um á hvaða vegum flest slysin verða. Umferðarstofa er með mjög gott slysakort sem hver einasti landsmaður getur farið inn á og séð nákvæmlega öll slys sem hafa orðið á undanförnum áratug, menn geta farið inn á viðkomandi vefsvæði og skoðað það.

Er hægt að leggja að jöfnu veg sem á verða mörg slys og hættulegan veg? Nei. Það fer auðvitað oft saman, en vegarkafli getur verið mjög áhættusamur þrátt fyrir að hann sé ekki fjölfarinn, með öðrum orðum, vegur getur verið mjög hættulegur þó að hann sé ekki fjölfarinn. Það sem ég hefði viljað sjá, virðulegi forseti, og ég hvet hæstv. ráðherra og alla þingmenn til að leggjast á árar í því, að við setjum, og setjum það í forgang, áætlun um að taka áhættumestu og slysamestu vegarkaflana á Íslandi og laga þá, alveg sama hvar þeir eru á landinu. Mér finnst að hv. þingmenn, sama úr hvaða kjördæmi þeir eru, eigi að sameinast um það.

Við höfum séð örlitla fækkun, sem betur fer, á banaslysum en ekki alvarlegum slysum. Ég vil hvetja fólk til þess að hugsa: Hvað þýðir alvarlegt slys á fólki? Alvarlegt slys á fólki þýðir alla jafna örkuml. Oftar en ekki er það kornungt fólk sem lendir í því að örkumlast um alla ævi eftir umferðarslys. Ég veit, virðulegi forseti, að öllum hv. þingmönnum, hæstv. ráðherrum og öllum landsmönnum finnst sárt að sjá slíkt gerast.

Við getum, virðulegi forseti, gert okkar til að lágmarka slíkan skaða. Við gerum það með því að nota samgönguáætlun eins og þessa þar sem við setjum þetta atriði — þó svo að það sé margt fleira sem komi til — í algjöran forgang. Við erum með allar upplýsingarnar og það er ekki eftir neinu að bíða.

Virðulegi forseti. Ég hef oftar en ekki farið yfir það að mér finnst forgangsröðun í samgöngumálum ekki rétt svona almennt séð. Ég er þingmaður fyrir Reykjavík og okkur í Reykjavík finnst að ekki sé nægilegt tillit tekið til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu. Ég ætla að láta þá umræðu bíða vegna þess að í þessari ræðu, á þeim fáu mínútum sem ég hef — ég veit að hæstv. ráðherra er að hlusta af athygli og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það og bið hann að svara mér því hvort hann sé tilbúinn í þá vegferð að við forgangsröðum í þágu umferðaröryggis.

Við erum með upplýsingarnar og nú er það spurning um hinn pólitíska vilja. Ég mundi ætla að ef það er eitthvað sem menn í öllum flokkum geta sameinast um sé það þetta, alveg sama hvaða skoðanir menn hafa um allt það sem snýr að samgöngumálum, og það eru margir spennandi vinklar á því. Ég bið bara um þetta: Að sameinast um að útrýma áhættusömustu vegarköflunum, alveg sama hvar þeir eru á landinu. Það er svo margt sem vinnst með því. Þetta er heilbrigðismál, það kæmi til dæmis fram í minni útgjöldum til heilbrigðismála.

Ef við gerðum þriggja, fjögurra eða fimm ára áætlun sem sneri bara að þessu, þ.e. að taka niður áhættusömustu kaflana, og verktakar sem bjóða í slík verk vissu af því þá gætu þeir skipulagt sig fram í tímann og væru meðvitaðir um hvaða kafli yrði næstur. Það eru miklar fjárfestingar sem verktakar þurfa að fara í sem vinna við vegagerð og það segir sig sjálft, alveg sama í hvaða atvinnugrein en þó sérstaklega þessari, að mikilvægt er að vita hvað næsta ár ber í skauti sér.

Virðulegi forseti. Þetta er það eina sem ég ætla að leggja fram í umræðunni á þessu stigi og ég vil biðja hæstv. ráðherra að koma núna í andsvar og svara því hvort hann sé tilbúinn til þess að leggja sitt af mörkum — og hann er nú valdamesti einstaki maðurinn í þessum málaflokki eðli málsins samkvæmt — hvort hann sé til í þá vegferð að við Íslendingar sameinumst um að útrýma hættulegum vegum á Íslandi.