140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa ræðu og verð að segja að ég kann mjög að meta áherslur hv. þingmanns og mér þykja þau baráttumarkmið sem hann setur fram mjög verðug.

Nú er það svo að við setjum öryggismálin í forgang að ýmsu leyti. Við reynum við nýframkvæmdir — og þá vísa ég í verklag Vegagerðarinnar — að hafa öryggi að leiðarljósi við hönnun mannvirkja og ég hygg að þar höfum við Íslendingar bætt okkur á undanförnum árum. Að þessu leyti er þetta markmið fyrir hendi og nokkuð sem við leggjum áherslu á.

Gerum við það að öllu leyti? Nei, það gerum við í reynd ekki vegna þess að önnur sjónarmið koma einnig til sögunnar sem eru áherslur á að bæta samgöngur þar sem þær eru allra lakastar, allra verstar, eins og á Vestfjörðum svo dæmi sé tekið, og það er einnig gríðarlegur þrýstingur á að ráðast í dýrar stórframkvæmdir. Sá þáttur sem hv. þingmaður leggur áherslu á, þ.e. öryggisþátturinn, er að mörgu leyti ákjósanlegur, ekki bara vegna þess að það er verðugt og mikilvægt baráttumarkmið heldur er það líka atvinnuvæn stefna. Margar framkvæmdir víða í þessu efni eru mjög atvinnuskapandi og jafnvel miklu fremur en stórframkvæmdirnar sem byggja á stórvirkum vélum, þarna koma að yfirleitt margar hendur.

Ég er aðeins að leggja áherslu á þetta, við leggjum (Forseti hringir.) áherslu á öryggismálin en það koma þarna önnur sjónarmið líka, greiðar samgöngur svo dæmi sé tekið.