140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað þennan þátt snertir er í tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun vikið sérstaklega að slysagildrunum. Þar kemur fram að á vegáætlun er gert ráð fyrir 340 millj. kr. framlagi á þessu ári, 340 millj. kr. á komandi ári og 340 millj. kr. á árinu 2014 sérstaklega til lagfæringa á alvarlegum slysastöðum. Þar er því þetta sértæka markmið haft í huga.

Ég vil leggja áherslu á að ég tel þessa umræða sem hv. þingmaður vekur athygli á mjög mikilvæga og það er mikilvægt að við tökum hana til alvöruumræðu í þingsal og í samgöngunefnd þingsins og horfum raunsætt á þá staðreynd að við erum að tefla saman mismunandi sjónarmiðum. Ég held að allir mundu geta fallist á, svona við fyrstu sýn, að það sé rétt sem hv. þingmaður segir, við eigum að forgangsraða í öryggismálum og það viljum öll. Síðan erum við í reynd að setja aðra þætti einnig í forgangsröð og tefla þessu öllu saman. En ég tel að þessi umræða sé mjög mikilvæg og þakka fyrir hana.