140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:56]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Við tökum þátt í mjög mikilvægri umræðu og ég ætla að byrja á að taka undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um að samgöngumál varða vitaskuld heilsufar þjóðarinnar. Við eigum að horfa á samgöngumál með umferðaröryggissjónarmið í huga fyrst og fremst en vitaskuld þarf líka að horfa til margra annarra þátta í þessu mikilvæga umræðuefni. Ég hef horft á þrjá þætti öðrum fremur, öryggismál sem ég nefndi fyrst, styttingu vegalengda, sem er gríðarlegt hagsmunamál fyrir dreifðar byggðir, lækkar flutningskostnað og bætir kjör alls almennings út um landið, og í þriðja lagi eru samgöngumál mannréttindamál, liggur mér við að segja, þegar kemur að því að treysta byggðir. Þessir þrír þættir eru mikilsverðir í þessu umræðuefni og mér sýnist að samgönguáætlun sem hér er til umfjöllunar taki á þessum atriðum.

Spyrja má hvort samgönguáætlunin sé metnaðarfull. Það er kannski ósanngjarnt að spyrja þeirrar spurningar miðað við þær aðstæður sem við búum við í dag. Við slógum hvert Íslandsmetið af öðru fyrir fáum árum hvað samgönguuppbyggingu varðaði. Við vörðum á fjórða tug milljarða tvö ár í röð til samgöngubóta hringinn í kringum landið en nú er hún Snorrabúð stekkur hvað það varðar og úr minni sjóðum að dreifa en þá var. Við hljótum því að staldra við þær áherslur sem eru uppi á borði í þessari samgönguáætlun. Ég er vitaskuld ekki alls kostar ánægður með allar þær áherslur sem þar birtast þingheimi og þjóð allri og tel að við þurfum, sakir öryggis, styttri vegalengda og traustari byggða, að drífa frekar í ýmsum framkvæmdum en þessi ágæta samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Þar vil ég sérstaklega nefna þrjá þætti og ekki endilega í áhersluröð. Það er að tryggja öruggar samgöngur til Vestmannaeyja, það er að huga eins fljótt og auðið er að gerð Dýrafjarðarganga og síðast en ekki síst að flýta gerð Norðfjarðarganga.

Hvers vegna nefni ég þessi þrjú atriði í vel að merkja þremur kjördæmum? Jú, þeir hópar fólks sem búa og starfa í þessum landshlutum, á Vestfjörðum, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum, eru einfaldlega ekki á pari við það umferðaröryggi og þær aðstæður sem aðrir landsmenn búa við í samgöngumálum sínum. Um það þarf ekkert að efast, um það þarf þingheimur ekki að deila. Vegamál á Vestfjörðum hafa um langt árabil verið skör neðar hvað öryggi varðar miðað við aðra hluta landsins. Þess vegna er það ánægjuefni að ráðast eigi í vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum með göng undir Hjallaháls ef láglendisvegur verður ekki í boði á þeim slóðum og þess vegna er ánægjuefni að Dýrafjarðargöng séu komin á blað með afgerandi hætti milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Sá vegartálmi er einhver sá versti á landinu núna.

Ég nefni líka Norðfjarðargöng sem mér eru afskaplega hjartfólgin og tel að Ísland sem hagstærð hafi efni á því að flýta þar för í framkvæmdum. Það vill þannig til að þriðjungur af útflutningstekjum okkar Íslendinga fer um hafnir Fjarðabyggðar og er álið þar vitaskuld stór hluti en einnig fiskútflutningur. Það er með ólíkindum að núna, eftir það efnahagshrun sem reið yfir samfélagið, þurfi sá hluti landsins sem aflar ef til vill langmestu teknanna að búa við langverstu samgöngurnar. Þetta er líka sanngirnisspursmál. Þegar almenn krafa kom frá stjórnsýslunni, um að sveitarfélögum fækkaði hér á landi með sameiningum, var látið í veðri vaka að ráðist yrði í umtalsverðar samgöngubætur á Austfjörðum með hliðsjón af sameiningarmálum sveitarfélaga á þeim slóðum en efndir urðu ekki miklar. Vitaskuld eru Fáskrúðsfjarðargöng orðin að veruleika en vegurinn um Oddsskarð, sem vel að merkja er innanbæjarvegur, er slík hörmung og það hættulegur, og eiginlega ófær nútímaflutningstækjum, að ekki verður lengur við unað.

Ég mun því berjast fyrr því, herra forseti, að framkvæmdum samkvæmt þessari samgönguáætlun, hvað varðar Norðfjarðargöng og reyndar líka hvað varðar Dýrafjarðargöng, verði flýtt og horft verði til ýmissa leiða í þeim efnum. Til dæmis hefur sú leið verið nefnd að verktakar sem annist verkið láni ríkisvaldinu fyrir framkvæmdinni til að byrja með svo að hægt verði að ráðast í hana fyrr en ella.

Norðfjarðargöng, Dýrafjarðargöng og samgöngur til Eyja eru að mínu mati í forgangi og eiga að vera í forgangi þegar horft er til samgönguframkvæmda á næstu árum. Ég trúi því að þeir sem hafa farið um þessi svæði, til Eyja, um svæði Fjarðabyggðar og Vestfirði, séu mér sammála um þetta efni. Þar búa menn við mun lakari samgöngur og umferðaröryggi en allur almenningur hér á landi. Þess vegna, og ég endurtek, herra forseti, mun ég leggja sérstaka áherslu á að þessum framkvæmdum á umræddum svæðum verði hraðað sem kostur er með þeim úrræðum sem til er að dreifa. Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra og ráðuneyti hans til að skoða allar leiðir sem tækar eru til að flýta þar för. Það er afskaplega mikilvægt.

Herra forseti. Það er ánægjulegt að í þessari samgönguáætlun sé lögð áhersla á almenningssamgöngur. Ég tel að þær þurfi að tryggja og auka ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst í ljósi hækkandi eldsneytisverðs. Síðast í morgun fór ég með strætó frá heimili mínu að vinnustað hér niðri í Kvosinni, og er það góður samgöngumáti og þjóðhagslega hagkvæmur. Ég hvet ráðuneytið til að hefja samstarf og samvinnu við sveitarstjórnaryfirvöld í þessa veru til að net almenningssamgangna á jörðu niðri verði eflt til muna. Það er í sjálfu sér ekkert eðlilegt að umferðin á höfuðborgarsvæðinu sé á þá leið að einn maður sitji í hverjum bíl í umferðarteppu fyrri hluta dags og svo aftur seinni hluta dags þegar við getum að hluta til leyst það vandamál með bættum almenningssamgöngum. Þess vegna fagna ég þeim áherslum sem á þeim eru en vek jafnframt athygli á því að almenningssamgöngur eru landfræðilega sértækar, duga á sumum stöðum en annars staðar ekki.

Mig langar því að koma að öðrum þætti almenningssamgangna og það er í lofti. Ég lít svo á að innanlandsflug á Íslandi sé snar þáttur og afskaplega mikilvægur í almenningssamgöngum. Við eigum og verðum sem þingheimur og þjóð öll að skilgreina flug innan lands sem almenningssamgöngur. Þess vegna er það afskaplega brýnt að skattleggja þennan kost almenningssamgangna ekki út af borðinu. Þar erum við komin að ystu mörkum og líklega yfir þolmörk þegar kemur að almenningssamgöngum. Þar erum við að skerða hlut stórs hluta þjóðarinnar til eðlilegra, stundum lífsnauðsynlegra samgangna um land sitt. Það á því að vera pólitískt áherslumál að milda aðgerðir gagnvart innanlandsflugi hér á landi. Ég set stórt spurningarmerki við þær skattahækkanir sem hafa verið iðkaðar á undanliðnum vikum og mánuðum og tel að þar séum við komin út yfir eðlileg þolmörk.

Herra forseti. Ég vek jafnframt athygli á því að eitt helsta hagsmunamál almenningssamgangna á Íslandi varðar staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Almenningssamgöngur verða ekki við lýði á Íslandi nema flugvöllur verði í nágrenni við alla þá stjórnsýslu og þjónustu sem er saman komin á einum punkti á höfuðborgarsvæðinu. Flutningur innanlandsflugs, t.d. til Keflavíkurflugvallar, mun gera annað tveggja, rýra rekstrarhæfi innanlandsflugsins, jafnvel eyðileggja ýmsa leggi þess, svo sem til Egilsstaða og Ísafjarðar, og svo er á hitt að líta að ekki er sjálfgefið að þjónustan sem hefur verið komið upp á höfuðborgarsvæðinu, í 101 Reykjavík, verði áfram á þeim stað ef samgöngur til höfuðborgarinnar verða fluttar á annan stað. Það er samasemmerki á milli þjónustukjarna og samgangna. Það hlýtur að vera samasemmerki á milli þessara tveggja þátta.

Ég fagna jafnframt, herra forseti, aukinni áherslu á strandsiglingar sem hefur verið baráttumál jafnaðarmanna um langt árabil. Það er ekki sjálfgefið að allar vörur séu fluttar landleiðina. Stóran hluta þeirra á auðveldlega að vera hægt að flytja meðfram ströndum landsins. Ég fagna því útboði sem fram undan er í þeim efnum og horfi björtum augum til þess að mikill hluti landflutninga geti orðið á sjó á komandi árum. Vonandi verður ráðist í útboð á þessu ári og kannski ekki seinna en um næstu áramót því að þetta er mikið hagsmunamál fyrir landsmenn alla, jafnt fyrir Reykjavík sem og þá sem búa úti á landi og þá sem búa við flutningskostnað sem er óheyrilegur, margfaldur á við það sem þekkist til dæmis hér á suðvestanverðu horninu.

Herra forseti. Mig langar að víkja örfáum orðum að Vaðlaheiðargöngum í lok ræðu minnar. Þau eru að mínu viti afskaplega brýn. Ég hef lesið margar skýrslur er lúta að gerð Vaðlaheiðarganga á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals og tel að sá fjöldi sérfræðiálita sem þar liggur fyrir taki af tvímæli um að hægt sé að ráðast í gerð ganganna með sjálfbærum hætti. Umferðarspár er lúta að þessum skýrslum eru afskaplega varfærnar svo ekki sé meira sagt, einungis gert ráð fyrir 2% aukningu á umferð á næstu árum og áratugum þegar reyndin við gerð jarðganga er allt önnur. Er skemmst frá að segja 120% aukningu á umferð til Siglufjarðar eftir að Héðinsfjarðargöng urðu að veruleika. Auk þess nægir að horfa til þeirra möguleika sem eru fyrir austan Vaðlaheiði í orkuuppbyggingu, það mun kalla á stóraukna umferð.

Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að koma hingað upp í andsvör við mig til að tjá afstöðu sína til Vaðlaheiðarganga. Nú liggur fyrir að ríkisstjórnin mun ef til vill leggja fram frumvarp í þessa veru á komandi dögum og mér leikur hugur á að vita, herra forseti, hver afstaða hæstv. innanríkisráðherra er til þessa máls. Telur hann, rétt eins og svo margir aðrir, að ráðast eigi í þessa framkvæmd á næstu vikum eða er hann afhuga því að svo verði? Það væri eðlilegt og sjálfsagt mál að hæstv. innanríkisráðherra svaraði þessari spurningu vegna þess að hún er mjög ofarlega á baugi núna þegar verktaka vantar verkefni og við þurfum að bæta umferðaröryggi hér á landi.