140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef í reynd gert grein fyrir afstöðu minni. Ég bíð eftir niðurstöðu þingnefndar sem fjallar um þessi mál. En eitt vil ég þó segja að þegar spurt er um viljann til verkanna er spurt um vilja verktaka og vilja pólitíkusa. En það eru aðrir sem skipta þarna ekki síður máli, það eru notendur. Hver er greiðsluviljinn? Hver er greiðslugetan? Á þeirri forsendu spyrja menn um notkun mannvirkjanna.

Ég hef orðið þess áskynja að í umræðu um samgöngumál og vegtolla ekki síst, horfa menn á málin út frá sjónarhóli verktaka og stjórnmálamanna en í allt of litlum mæli þeirra sem eiga að nota þessi mannvirki. Þess vegna gerðist það þegar ráðast átti í að setja upp vegtolla á suðvestursvæðinu til að fjármagna algerlega nýframkvæmdir hér að ég fékk í hendur undirskriftir 42 þúsund einstaklinga sem lýstu andstöðu við vegtolla, sem vildu ekki borga þessa tolla, sem vildu ekki borga þessa skatta. (Gripið fram í.) Við hljótum að sjálfsögðu að horfa til þess að við lifum í samfélagi og þurfum að horfa til greiðsluviljans og greiðslugetu almennings en ekki bara hvað hugnast stjórnmálamönnum og verktökum.