140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:21]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir innlegg hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar. Viðhalds- og fjárfestingarþörf flugvalla hér á landi er mikil. Ef ég man rétt bað Isavia um 1 milljarð til þess málaflokks nú nýverið og við þeirri ósk þurfti að bregðast. Við því var ekki orðið, heldur voru 200 millj. kr. settar í málaflokkinn og nemur það þeirri aukningu sem hér um ræðir.

Við þurfum að vera mjög varfærnir í þessum efnum í ljósi þess að flugsamgöngur eru almenningssamgöngur. Ég tek undir varnaðarorð ýmissa sveitarstjórnarmanna víða um land í þessum efnum. Umræðan um innanlandsflug á Íslandi hefur mjög oft verið á villigötum og fjarri öllum sannleika. Ég vil í því efni nefna að á undanförnum 35 árum hefur að jafnaði verið 3% aukning í innanlandsflugi á hverju ári, stundum meiri, stundum minni, stundum hefur hún farið vel yfir 12% á milli ára, en að jafnaði hefur innanlandsflugið aukist um 3% á undanförnum 35 árum. Á sama tíma hefur áætlunarflugvöllum fækkað úr liðlega þrjátíu niður í um það bil tíu. Þessi fararmáti er og hefur þó verið í sókn vegna þess að fólk þarf á honum að halda. Þess vegna eigum við ekki einvörðungu að horfa til þess hvernig bensínverðið og skattlagningin þar þróast á hverjum tíma heldur einnig hvernig við förum með innanlandsflugið, vegna þess að það er snar þáttur í samgöngum landsmanna.