140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanns um mikilvægi þess að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram þar sem hann er. Ég bendi hv. þingmanni á það sem fram kom í fréttum nýverið þegar framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands sagði að í raun væri innanlandsflugið niðurgreitt í samræmi við eftirspurn eftir flugi og hversu vel gengi að fljúga til Grænlands. Hann sagði að hins vegar væru þolmörk á því eins og öllu öðru og að í farvatninu væru hugsanlega miklar hækkanir.

Mig langar aðeins að blanda mér í umræðuna um Vaðlaheiðargöng. Mér fannst hv. þingmaður fara aðeins út af sporinu í ræðu sinni þegar hann kallaði eftir afstöðu hæstv. ráðherra. Við megum nefnilega ekki stilla málunum þannig upp að þeir sem bera ábyrgð á ríkisfjármálunum og hafa efasemdir og vilja skoða hlutina betur í ljósi skýrslna og samantekta sem fyrir liggja, séu á móti málinu. Málið fjallar ekki um það hvort maður er með eða á móti því. Við megum ekki stilla því þannig upp. Þess vegna sagði ég að mér fyndist hv. þingmaður fara aðeins út af sporinu. Hv. þingmaður á sæti í hv. fjárlaganefnd ásamt mér og þar fjöllum við nánast á öllum fundum um að þegar farið er í hlutina með þeim hætti, þ.e. að skipa mönnum í fylkingar, með eða á móti, kemur það í bakið á okkur seinna meir. Þess vegna tel ég mjög eðlilegt og mikilvægt fyrir okkur að ræða hlutina og flokka menn ekki eftir því hverjir eru með og hverjir eru á móti. Sumir vilja skoða málið betur og ég er einn af þeim. Ég les greiningarskýrsluna öðruvísi en hv. þingmaður, ég sat á sama fundi og hv. þingmaður þegar sú skýrsla var kynnt. Ég tel mjög mikilvægt að farið verði betur yfir málið þannig að menn geri sér grein fyrir möguleikunum í stöðunni. Ég beini því til hv. þingmanns að stilla málinu ekki þannig upp að menn séu annaðhvort með því eða á móti því að það er mjög mikilvægt að við vöndum vinnubrögðin í hv. fjárlaganefnd sem við höfum hundrað sinnum talað um erum hér í ræðustól. En þegar reynir á megum við ekki falla frá þeirri sannfæringu okkar að ekki sé nauðsynlegt að vanda sig þegar verið er að afgreiða einhver mál sem standa okkur ekki nærri.