140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:25]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir það vegrið sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson reisti mér til hjálpar svo ég fari ekki út af veginum í umræðu um Vaðlaheiðargöng. Það er rétt hjá honum að auðvitað eigum við að skoða alla þætti þessa máls og ég hef talaði fyrir því að þeir væru skoðaðir á fyrri og síðari stigum. Ég fagnaði skýrslu IFS Greiningar með þeim plúsum og mínusum sem þar komu fram — það voru vitaskuld líka mínusar, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, eins og að auka þyrfti hlutafé til Vaðlaheiðarganga ehf. til að tryggja betur sjálfbærni verksins.

Ég horfi hins vegar til þess að Eyjafjörður og Þingeyjarsýslur eru eitt atvinnusvæði, það eru gríðarleg uppbyggingartækifæri á þessum slóðum, bæði hvað varðar iðnað og ekki síst matvælaframleiðslu. Reynslan af jarðgöngum um allt land hefur sýnt að umferðaraukning er og hefur verið meiri en spár hafa gert ráð fyrir. Nægir þar að nefna Hvalfjarðargöng og mætti nefna enn fleiri göng. Ég nefndi Siglufjarðargöng, þar varð 120% aukning á sumarumferð milli fyrstu tveggja áranna eftir að þau voru tekin í notkun, og svo mætti áfram telja. Við samanlagðan lestur allra þessara skýrslna tel ég að verkið sé sjálfbært með þeim fjármögnunarleiðum sem bent er á, ekki síst með þeirri greiðsluleið sem þar er farin. Að öllu samanlögðu tel ég þetta verk vera fært en það er sjálfsagt mál og á alltaf að vera þannig á Alþingi að menn skoði allar hliðar málsins. Það hefur verið gert að mínu viti. Við höfum fengið fjölda skýrslna um málið inn á borð okkar og við tökum tillit til þeirrar gagnrýni sem þar kemur fram.