140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:28]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja í tilefni af ræðu hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar hér áðan að lítið var afmælisgjöfin sem kom frá hæstv. innanríkisráðherra í takt við þann gríðarlega fögnuð sem kom fram í merkilegri afmælisræðu hv. þingmanns fyrr í dag á þessum fundi (Gripið fram í: Á afmælisdögum er fagnað.) Á afmælisdögum er fagnað og þá ætlast maður líka til þess að vinir og kunningjar færi mönnum góð skilaboð og árnaðaróskir. Ég tek hins vegar undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmanni í umræðu um skattlagningu á innanlandsflugið. Hún er komin út úr öllu korti að flestra mati. Til viðbótar liggur fyrir, þó að þess ekki getið í samgönguáætlun eða reiknað út, að endurnýjun á flugstöðinni fyrir innanlandsflugið á Reykjavíkurflugvelli verður greidd þannig að kostnaður mun leggjast ofan á hvern seldan farmiða, vænti ég. Hún á þannig að fjármagnast af notendagjöldum.

Við getum merkt þá umræðu sem á sér stað um samgöngumál mikið til út frá umræðu um einstaka verkþætti, oftast einhverjar nýjar framkvæmdir. Ég vil reyna að halda mig við aðrar áherslur í þessari seinni ræðu minni þar sem tíminn er knappur og reyna að draga kannski stærri línur. Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig umræðu og meðferð þess samgöngumáta sem flugið er hlýtur hjá viðkomandi yfirvöldum sveitarfélags, hér borgarinnar, þegar það liggur fyrir að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar eigi að loka þessum flugvelli 2016. Þá getur flugið í núverandi mynd um þennan flugvöll ekki gengið með sama hætti og verið hefur. Í þeirri þingsályktunartillögu sem við fjöllum um hér liggur fyrir að ekki eru gerðar neinar ráðstafanir til að mæta því ef þetta gengur fram. Að öllu óbreyttu leggst innanlandsflugið þá einfaldlega niður vegna þess að það er borið uppi af tiltölulega fáum leiðum. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu og ætlast til og mælist raunar til þess að hv. samgöngunefnd taki þennan þátt til umfjöllunar þegar hún ræðir þessa tillögu.

Það er hins vegar miklu stærra mál sem ég hef í raun enn meiri áhyggjur af. Á síðustu árum hefur verið unnið gríðarlega mikið átak í uppbyggingu samgöngukerfisins, sérstaklega er lýtur að vegagerð. Ef maður skoðar árin aftur til 1996 hafa verið gríðarlegar framkvæmdir á því árabili í samgöngumannvirkjum fyrir allt að rúma 25 milljarða á einu ári. Við sjáum þess hins vegar stað núna að samkvæmt þeirri áætlun sem hér liggur fyrir verður dregið úr nýframkvæmdum og þetta verða 4–5 milljarðar á ári. Þegar maður sér þessar tölur skýtur nokkuð skökku við í umræðunni um samgöngumálin að af hálfu sumra stjórnarliða hafi því verið haldið fram að ekki hafi verið unninn nokkur skapaður hlutur af viti í íslensku þjóðfélagi síðastliðin 18 ár. Það staðfestist í þeim upplýsingum sem liggja fyrir að samgöngukerfi landsins hefur tekið stökkbreytingum á þessum árum.

Áhyggjur mínar lúta að því að að óbreyttu mun þetta kerfi drabbast niður vegna þess að fjárveitingar til þjónustu og viðhalds þess kerfis sem við höfum byggt upp eru hvergi nándar nægar til að halda því við svo sómasamlegt sé. Þó að þetta liggi fyrir eru þingmenn ekki uppteknir við að ræða þann veruleika. Þvert á móti erum við enn að láta okkur dreyma um að við getum haldið áfram verkum með sama hætti og hefur verið gert síðastliðin 18 ár. Það er ekki um það að ræða. Við eigum töluvert langt eftir til þess og ég held að það sé ágætt að menn láti af þeirri umræðu að við getum stokkið til hvaða verka sem er. Það er ekkert um það að ræða.

Þjónustan og viðhaldið, er það sem við þurfum að kappkosta númer eitt, tvö og þrjú. Að öðrum kosti munum við þurfa að glíma við mun fleiri vegabúta varðandi öryggismálin, ef ég held mig við vegamálin, en hv. þm. (Forseti hringir.) Guðlaugur Þór Þórðarson gerði að umtalsefni fyrr í þessari umræðu, en að öðru leyti tek ég heils hugar undir þau sjónarmið sem hann (Forseti hringir.) talaði fyrir þar.