140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð með stutta ræðu í þetta skiptið, búinn að tala einu sinni í þessu máli. Ég vil þó koma að nokkrum punktum.

Í fyrsta lagi sjáum við og það var rætt örlítið í dag, að bensínverð er að hækka mjög mikið. Þar af leiðandi þurfum við að horfa til þess að nýta samgöngur til að stytta vegakerfið eða breyta því, ekki endilega að stytta það en að það verði auðveldara að fara um það. Einnig verðum við að horfa til þess að þær forsendur sem eru gefnar eins og til dæmis í þessari áætlun um að hvatinn verði enn þá meiri til í að skipta yfir í litlar og sparneytnari bifreiðar, ég nefndi þetta í fyrstu ræðu minni, eru ekki alveg réttar, að minnsta kosti ekki hvað varðar ákveðin svæði á landinu.

Á að nota samgöngubætur til þess að tengja byggðir? Ég held að samgöngumál, hvort sem það er flug, vegir eða siglingar, séu vitanlega, fyrir utan að vera skilgreind sem samgöngumál, gríðarleg byggðamál. Þau eru einnig atvinnumál og jafnræðismál, jafnræðismál að því leytinu til að stór hluti þjóðarinnar býr við hörmulegar samgöngur og hefur búið við lengi, svo að því sé haldið til haga. Það er ekki verið að finna upp á því núna.

Hins vegar er áhyggjuefni að ekki skuli vera færi til að fara fyrr í margar af þeim framkvæmdum sem liggja á borðinu. Þeim er raðað svolítið aftarlega í þessa áætlun og munar þar allt að helming á fyrri hluta áætlunarinnar og seinni hluta, þ.e. rúmir 21 milljarðar í 44 milljarða ef ég man rétt.

Við þurfum að horfa á svo margt í þessu því að þetta er eins og ég sagði líka atvinnumál, þetta snýr að ferðaþjónustu og möguleikum fyrirtækja til að flytja vörur, þjónustu og fólk á milli. Þetta skiptir allt miklu.

Ég hef líka áhyggjur af því, frú forseti, að þegar við komumst aftur á betri sprett í samgöngumálum verðum við búin að missa svo mikið af tækjum úr landi að það muni kosta mögulega marga milljarða af dýrum gjaldeyri Íslendinga að kaupa þessi tæki aftur. Það er mjög óheppilegt að framkvæmdir skuli hafa dottið svo mikið niður.

Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í umræðu um Vestfjarðaveg og Teigsskóg. Það eina sem ég ætla að segja um það er að ég var á fundi um daginn um byggðamál og þar sagði maður að hann undraðist að landnámsskógur frá 1981 gæti haft þau áhrif sem þessi skógur virðist hafa. Verð ég að viðurkenna og segja hreint út að ekki finnst mér kjarrið í Borgarfirði neitt verra en þetta kjarr þarna.

Hvað flugið er varðar er mikilvægt að við nýtum það í þágu öryggis íbúanna að sjálfsögðu, til að efla atvinnu, ferðaþjónustu og til að styrkja þá atvinnu sem fyrir er í sveitarfélögunum því án flugsins vitum við að tími ferðalaga lengist og það getur orðið til þess að fyrirtæki og stofnanir vilji síður setja sig niður úti á landi sem er mjög slæmt, því það hefur gefið mjög góða raun.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson nefndi skattpíningu ríkisstjórnarinnar á innanlandsflugið. Tek ég undir það. Það er mikið áhyggjuefni.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi að í þessu öllu má ekki gleyma mikilvægi þess að sinna viðhaldi og þjónustu á vegunum. Ég er ekki að segja að því sé gleymt, ég veit svo sem ekki hvar á að setja það nákvæmlega en hér er verið að auka í tengivegina, en að halda við þjóðvegi 1 er gríðarmikilvægt. Það hefur verið reynt að gera það á ákveðnum köflum. Þeir sem keyra mikið um þann blessaða veg sjá það og það er mjög mikilvægt að halda því áfram, því að víða á honum eru hættulegir kaflar sem þarf að laga. Ég minnist þess að í áætluninni er sérstaklega talað um Biskupsbeygju upp á Holtavörðuheiði og fagna því. En það eru margir aðrir hættulegir vegarkaflar, svo við tölum nú ekki um einstaka vegi sem skipta miklu máli og eru mikið eknir eins og til dæmis vegurinn yfir Laxárdal, vegir í Borgarfirði eða á Reykjaströnd í Skagafirði. Þessir vegir eru illfærir að sumri til og þarna er starfrækt ferðaþjónusta, þetta er ekki hvetjandi fyrir þá sem eru að reyna að reka þarna starfsemi.

Frú forseti. Þetta er áætlun. Hún er lögð fram og fer til umfjöllunar í nefnd. Nefndin mun vonandi taka hana til endurskoðunar, hugsanlega raða upp á nýtt og finna vonandi fjármuni til að auka við verkefnin sem þarna eru og flýta einhverjum framkvæmdum ef mögulegt er.