140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum bara almennt sammála um að það þurfi að bæta inn í þessa áætlun, og tengivegirnir þar ekkert undanskildir. Ég var að reyna að rifja það upp á leiðinni í stólinn hvað tengivegirnir væru langir, en verð að viðurkenna að ég man það ekki, til dæmis í okkar kjördæmi einu saman, svo ég tali nú ekki um önnur kjördæmi. (Gripið fram í: Helmingurinn af öllum tengivegum.) Helmingur af öllum tengivegum, segir hv. þingmaður. Við sjáum því hversu gríðarlegt hagsmunamál það er að nægir peningar fari í þessa vegi, því að um þessa tengivegi fara að sjálfsögðu flutningar fram, um þá keyra íbúarnir og margir þeirra eru að sjálfsögðu líka ferðamannavegir, ef má orða það þannig.

Ég viðurkenni að ég hef ekkert verkfræðilegt vit á vegagerð, en mér finnst mjög spennandi að við fáum að sjá upplýsingar og tölur um hvernig hægt er að leggja slitlag á vegi sem eru ákveðið lítið notaðir en samt mikilvægir, án þess að fara í miklar uppbyggingar eða breytingar á vegunum eða eitthvað þess háttar. Ég held að þar sé hægt að spara töluvert mikla fjármuni. Þá getur hins vegar komið upp spurning um hraða og öryggi, en það gæti verið að merkingar eða annað mundu hjálpað til .

Við verðum að sameinast um að reyna að finna leið til að nýta þá fjármuni sem við höfum sem allra, allra best, en vitanlega þarf að auka fjármuni til vegaframkvæmda, viðhalds og þjónustu, því að það snertir ekki bara þjónustu heldur er það líka öryggisatriði og tengist atvinnumálum, því það skilar sér svo aftur til ríkisins.