140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu, gagnlegu og mjög svo málefnalegu umræðu. Ég ætla ekki að svara öllu því sem hér hefur verið bryddað upp á vegna þess einfaldlega að ég mun ekki hafa tíma til þess, ég hef aðeins tíu mínútur til ráðstöfunar.

Ég þakka það sem fram kom í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um það sem jákvætt er að finna í þessari áætlun. Hún vék t.d. að almenningssamgöngum. Hún lagði áherslu á öryggismál og taldi að þau ættu að vera í öndvegi. Ég er sammála henni um það. Við höfum rætt það hér — aðrir þingmenn hafa sérstaklega vakið máls á því.

Ég gat um það að í sérstakri öryggisáætlun í samgönguplagginu væri að finna 340 milljónir árlega næstu þrjú ár í fjögurra ára áætlun okkar, það voru 350 milljónir í fyrra. Þetta segir í reynd aðeins hálfa söguna vegna þess að öryggismálum er einnig sinnt undir öðrum liðum. Um 150 milljónum er varið til öryggismála í Reykjavíkurborg einni svo að dæmi sé tekið. Til öryggismála á næstu árum í jarðgöngum er ætlað að verja um 680 millj. kr. á nokkurra ára tímabili.

Síðan má nefna aðra þætti. Í sjálfu sér má segja að Vegagerðin öll verji við allar nýframkvæmdir umtalsverðu fjármagni til öryggismála. Þá horfum við t.d. til vegriðanna og af því að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vék sérstaklega að Reykjanesbraut og öryggisþáttum þar þá er núna komið útboð í gerð undirganga á Reykjanesbrautinni gegnt álverinu sem er mjög mikilvægur öryggisþáttur. Svo að við höldum okkur við Reykjanesbrautina er varið, sérstaklega í þessu árferði, gríðarlegum fjármunum í saltmokstur til að tryggja aftur öryggið. Öryggið kemur því víða við sögu.

Hv. þingmaður vék að skiptingu fjármuna á milli landshluta og taldi misvel í lagt í einstökum landshlutum. Það er alveg rétt. Nú reynum við að horfa til landshluta með tilliti til samgangna sem íbúarnir búa við. Þá finnst mér skipta miklu að hlutfallslega mest fari til þeirra landshluta sem búa við lakastan kost í þeim efnum og það eru óneitanlega Vestfirðir. Þess vegna hafa Vestfirðingar spurt: Ætlið þið ekki að vera sjálfum ykkur samkvæm og fylgja því eftir í jarðgangagerð líka? Það er nokkuð sem hefur verið uppi í umræðunni þótt forgangsröðunin í plagginu sé önnur. Norðfjarðargöng eru þar sett ofar en hin eru einnig á blaði, Dýrafjarðargöng og hugsanleg göng undir Hjallaháls, þótt ekki sé komin niðurstaða í það hvaða leið verður farin á láglendi því að við erum horfin ofan af hálsunum sællar minningar eftir fundarhöld sumarsins.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir vék einnig að breytingum sem orðið hafa á áætlunum á Álftanesi sérstaklega þar sem horfið hefði verið frá svokölluðum A22-staðli yfir í C10-staðal. Ég spurðist fyrir um hvað þetta merkjamál þýddi nákvæmlega og var upplýstur um að verið væri að hverfa frá tvíbreiðum vegi, í reynd fjögurra akreina, yfir í helmingi minni framkvæmd og umhverfisvænni. Þessi vegur á Álftanesi hefur verið umdeildur, sérstaklega yfir Garðahraun frá Arnarnesvogi yfir í Garðaholt. Þar var gert ráð fyrir stórri braut sem var mjög umdeild. Fallið hefur verið frá því að ráðast í þá framkvæmd. Vegurinn hefur verið minnkaður og þannig komið til móts við sjónarmið þeirra sem fannst of mikil röskun á umhverfinu.

Þingmaðurinn vék að ýmsum öðrum þáttum, meðal annars Kjósarskarðsvegi, og aðrir þingmenn vöktu máls á mikilvægi þess að horfa til ferðamannaiðnaðar. Það gerðu t.d. hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, nefndu mikilvægi þess að horfa til ferðamannaþáttarins, Uxahryggir og Kjósarskarðsvegur skipta þar máli.

Hv. þm. Róbert Marshall vék að fjármögnun vegakerfisins. Ég held að þegar við tölum um vegtolla þurfum við að vera mjög nákvæm í því sem við segjum. Ég er ekki að gera að því skóna að hv. þingmaður hafi verið ónákvæmur, en annars vegar erum við að tala um að hverfa frá því að fjármagna samgöngukerfið í gegnum skatta og gjöld á eldsneyti yfir í það að skattleggja notkun veganna, það er ein leið, og hins vegar er spurningin hvort við eigum ofan á núverandi gjaldtöku að innheimta skatta eða gjöld til viðbótar. Í því samhengi segi ég: Spyrjum notendur. Hver er greiðslugeta þeirra og hver er greiðsluvilji þeirra? Spyrjum ekki bara stjórnmálamenn og verktaka, heldur líka notendur og hlustum á hvað þeir segja þegar kaupmáttur hefur farið dvínandi og skattlagning vaxandi. Ég held að okkur stjórnmálamönnum veiti ekki af að horfa til þess líka, ekki síst þegar Samtök atvinnulífsins eða samtök verktaka hafa mjög hátt þá eigum við að hlusta á hvað notendur segja. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur verið með ágætan málflutning hvað þetta snertir.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vék að ýmsum þáttum. Hann lagði, eina og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur gert, mikla áherslu á viðhald og snjómokstur þar með. Ég get upplýst þingið um það að í árferðinu núna ver Vegagerðin um 600–700 millj. kr. umfram það sem gerist í venjulegu árferði. Það er verið að taka þessar tölur saman núna en árferðið skiptir verulegu máli. Í mikilli snjókomu, miklu fannfergi eru þessar upphæðir mjög stórar.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vék að öryggismálum og um þau hef ég áður átt við hann orðastað í andsvörum. Aðrir þingmenn komu inn á ýmsa þætti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur margsinnis vakið máls á fluginu og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson einnig og fleiri. Ég vil vekja athygli á því að þegar við erum að tala um stuðning við innanlandsflug kemur um 70% þess úr ríkiskassanum. Keflavíkurflugvelli er ætlað að vera sjálfbær, rísa undir rekstri sínum með gjöldum, en annað kemur úr ríkiskassanum eða 70%. Það eru umtalsverðir fjármunir, við erum að tala um tæpa 2 milljarða sem koma úr ríkiskassanum.

Það er rétt sem menn hafa sagt að auknar álögur á flugið, sem eru núna settar á Reykjavíkurflugvöll sérstaklega, valda að sönnu erfiðleikum hjá flugrekstraraðilum. En þá vil ég minna á að Isavia, sem sér um rekstur flugvallanna, hafði óskað eftir því að fá 1 milljarð árlega til að viðhalda flugvöllunum og bæta þá. Við höfum komið til móts við þessa aðila með því að hækka gjöldin um 200 milljónir þegar það er að fullu komið til framkvæmda, ekki á þessu ári heldur á tveimur árum. (Gripið fram í.) — 200 milljónir eru mínar upplýsingar, þær kunna að vera rangar en eru eftir því sem ég best veit. Þó eru menn með mismunandi tölur. Á þessu ári hefur Isavia talað um 80 milljónir en flugfélagið um 100 milljónir sem er ágiskun á hvað innheimtist.

Hæstv. forseti. Aðrir þingmenn véku að ýmsum þáttum sem væru þess virði að ræða hér. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson vék að fluginu, viðhaldi og mikilvægi þess að leggja áherslu á viðhald og gleyma okkur ekki í nýframkvæmdum. (Forseti hringir.) Ég tek undir með hv. þingmanni hvað það snertir og reyndar einnig hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni sem nú sem fyrr hefur lagt áherslu á mikilvægi tengiveganna. (Forseti hringir.) Það er alveg rétt.