140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður hefur bara eina mínútu þá skal fara fljótt yfir. Já, ég fagna þessu vegna þess að ég tel þá líka að ég og hæstv. innanríkisráðherra eigum samstöðu og sameiginlega torfu til að standa á um það verkefni sem búið er að stofna, þ.e. Vaðlaheiðargöng, vegna þess að það félag er stofnað á nákvæmlega sama hátt og hæstv. innanríkisráðherra er að tala um vegna Vestmannaeyjaferju. Ég held að það megi nota það gamla frumvarp sem er orðið að lögum til að semja nýtt frumvarp um einkahlutafélag um Herjólf.

Nú vil ég þakka kærlega fyrir þetta vegna þess að nú eigum við sameiginlegan vettvang til að vinna á, þ.e. hlutafélag um nýjan Herjólf, hlutafélag um Vaðlaheiðargöng og koma því verki í gang. Allt á þetta að vera sjálfbært og standa undir sér. Spurningin er hvort tíminn muni ekki leiða það í ljós að sameiginleg torfa geti líka skapast um stóru verkefnin á suðvestursvæðinu. Þó svo að 42 þúsund notendur hafi mótmælt við ráðherrann (Forseti hringir.) og hann hafi talið greiðsluviljann of lítinn hjá notendum til að fara í það, þá tel ég, virðulegi forseti, að greiðsluvilji almennings sé mjög lítill til að borga skatta almennt á Íslandi. (Gripið fram í: Hvað með samstöðuviljann?)