140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina sem hann lauk hér með ræðu sinni í þeirri umræðu sem farið hefur fram um samgönguáætlun og fór yfir spurningar sem fram höfðu komið og vangaveltur.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um í lok fyrri umr. Í fyrsta lagi: Hvers vegna var ekki tekið tillit til ályktunar og samþykktar Alþingis á sínum tíma, árið 2010, að það væri mjög sanngjarnt og eðlilegt að þær tvær framkvæmdir sem eftir voru af mótvægisaðgerðum sem ráðist var í 2007, annars vegar vegurinn um Fróðárheiði og hins vegar vegurinn um Öxi, yrðu með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í áætluninni? Annar rétt svo skríður í lok áætlunarinnar og varla er hægt að segja að byrjað sé á hinum. Hvers vegna er það? Ég vil kannski hafa spurninguna nákvæmari: Lagði samgönguráð þetta til og datt þetta út í ráðuneytinu?

Mig langar líka að forvitnast hjá hæstv. ráðherra, af því að hann kom inn á láglendisveg til Vestfjarða sem reynt er að vinna að. Það er búið að slá svokallaða Hálsaleið af og við erum svo sem ekki sammála um, ég og hæstv. ráðherra, um hvaða leið beri að fara, ég hef sterka skoðun á því að fara eigi í gegnum hríslur í Teigsskógi en ekki eru allir sammála mér um það, þó sumir. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra og inna hann eftir því, af því að ég þykist vita að það á sér samráð við sveitarstjórnarmenn á sunnanverðum Vestfjörðum: Hvar er málið statt núna, hver er staðan? Eru menn að leita að láglendisvegi sem alltaf er truflaður af einhverju öðru? Hvernig er staðan? Það er inni á áætluninni 2015–2018 að fara í áframhaldandi vegaframkvæmdir á þessu svæði og eins og við vitum getur það tekið mjög langan tíma að koma framkvæmdum í gang og hann er alltaf að lengjast. Þess vegna óska ég eftir að hæstv. ráðherra greini frá því hver staða mála er núna í augnablikinu.