140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að svar hæstv. innanríkisráðherra varðandi snjómoksturinn og áhrifin á framkvæmdirnar vekja með mér talsverðan ugg. Um er að ræða býsna háar upphæðir. Ef við erum að ræða að 600 millj. kr. sé varið til snjómoksturs, mjög mikilvægs og nauðsynlegs snjómoksturs, þá er hér um ræða tölu sem er t.d. hærri en heildarfjárveitingin til tengiveganna sem er 500 millj. kr. Það er því gríðarlega brýnt að ríkisstjórnin bregðist við þessu ástandi með því að leggja til að meiru fé verði varið til snjómoksturs þannig að komið verði í veg fyrir að hann bitni á framkvæmdagetunni, nógu bág er hún fyrir. Ef við þurfum síðan að taka á okkur skerðingu sem nemur meiru en heildarfjárveitingu til allra tengivega í landinu sjá allir að það hefur „drastísk“ og mjög alvarleg áhrif. Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að beita sér harkalega fyrir því innan ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Hann fær liðsinni héðan úr þinginu fyrir því að tryggt verði að sú viðbótarfjárveiting sem hefur nauðsynlega runnið til snjómoksturs bitni ekki á framkvæmdum (Forseti hringir.) varðandi vegagerð í landinu.