140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[18:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um það mál sem hv. þingmaður víkur að hafa borist kvartanir til innanríkisráðuneytisins og fjarskiptasjóðs. Hafa þessi mál verið skoðuð vandlega af þessum aðilum. fjarskiptasjóði er ekki heimilt að fara inn á þessi svæði, en í n-lið 3. liðs þingsályktunartillögunnar, sem er til fjögurra ára, segir um markmið um örugg fjarskipti, með leyfi forseta:

„Staðlar og gæðaviðmið fjarskiptaþjónustu verði endurskoðuð og eftir atvikum gefnar út reglur þar að lútandi. Kannanir verði gerðar reglulega hjá þjónustuveitum, niðurstöður birtar opinberlega og úrbótaþörf fylgt eftir.“

Þarna eru settar ákveðnar kvaðir sem við þurfum að skoða að fylgt sé eftir. Það þýðir að ef í ljós kemur að fyrirtæki sem eru markaðsráðandi á einhverjum tilteknum stöðum á landinu, eins og hv. þingmaður vísar til, og þau veita ekki fullnægjandi þjónustu þarf að skoða möguleika á því að Póst- og fjarskiptastofnun geti gripið til ráðstafana. Þá þarf að vera búið að setja reglur um lágmarkshraða tenginga.