140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

rannsókn á Icesave og einkavæðingu banka.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Að undanförnu hefur verið til umræðu að á þinginu kæmi fram tillaga um að rannsaka að nýju sölu ríkisbankanna á fyrri hluta síðasta áratugar. Við það hef ég engar athugasemdir, heldur mundi bara fagna því að enn einu sinni yrði farið yfir það til að eyða allri óvissu um hvernig að því var staðið. En þá vaknar sú spurning hvort forsætisráðherra teldi eitthvað því til fyrirstöðu að um leið yrði ráðist í heildarúttekt á því hvernig staðið var að endurreisn íslensku bankanna sem nú starfa á Íslandi þannig að það liggi endanlega fyrir hvernig ákvarðanatakan var og hvaða samningar við kröfuhafana lágu þar að baki vegna þess að ríkisstjórnin sem nú situr tók um það sérstaka ákvörðun að þeir yrðu ekki endurreistir á forsendum ríkiseignar heldur afhentir kröfuhöfunum. Það var sérstök ákvörðun ríkisstjórnarinnar og það skiptir máli að það liggi fyrir hvaða upplýsingar voru þá til staðar og hvers efnis samningarnir við þrotabú gömlu bankanna voru.

Jafnframt vil ég bera það upp við hæstv. forsætisráðherra hvort hún sjái nokkuð því til fyrirstöðu að samningarnir í tengslum við Icesave verði teknir til rannsóknar, allur aðdragandi þess að ríkisstjórnin skuldbatt sig gagnvart hinum erlendu aðilum til að bera samningana upp á Alþingi og hvernig aðdragandinn var að undirritun þess samkomulags sem síðar kom í ljós að ekki var meiri hluti fyrir á þinginu. Öll sú atburðarás er enn þá hulin þoku sem mjög mikilvægt er að verði létt af málinu svo við getum gert almennilega upp við það ferli í heild sinni.