140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

staða heimilanna.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. forsætisráðherra hefði getað fengið plássið á síðunni þar sem ríkisbankinn Landsbankinn auglýsti. Þar hefði verið nóg pláss og við hæfi að fjalla um heimilin í stað þess að hafa auglýsingu frá þessum banka.

Hæstv. forsætisráðherra talar um árangur og endurreisn bankanna en ætti að svara því hvers vegna í ósköpunum bankarnir eða kröfuhafarnir voru látnir njóta ávinningsins. Af hverju fengu kröfuhafarnir þetta svokallaða svigrúm í sínar hendur en ekki heimilin? Með þessari aðgerð afhenti ríkisstjórn kröfuhöfunum í raun lyklana að íbúðum fólksins í landinu. Hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra segir að þetta sé allt í góðu lagi? Af hverju fjallar hæstv. forsætisráðherra ekki um þessi 60 þús. heimili sem eru með neikvæða eiginfjárstöðu eða þau 50% heimilanna sem varla ná endum saman? Það er þetta sem við þurfum að vinna að, frú forseti, og fyrir þetta hefði hæstv. forsætisráðherra örugglega getað fengið aðeins meira dálkapláss í málgagni sínu, Fréttablaðinu, ef hann hefði áhuga á að skrifa um (Forseti hringir.) heimilin.