140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

staða heimilanna.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar hrunið skall á voru skuldir fyrirtækjanna þreföld landsframleiðsla. Það hlýtur að vera árangur að við höfum náð því að þær eru núna um tvöföld landsframleiðsla. Sannarlega hafa heimilin fengið sinn hlut af því svigrúmi sem var í bönkunum og við höfum farið yfir það hér. Þar var svigrúmið 95 milljarðar en þar hafa verið afskrifaðir hátt í 200 milljarðar kr. og til viðbótar 50–60 milljarðar sem ríkið hefur farið út í, eins og ég sagði.

Þegar talað er um að 60 þús. heimili séu í vandræðum — ég geri ekki lítið úr því að mörg heimili eru í vandræðum, en þær tölur sem hv. þingmaður er að tala um eru miðaðar við 2010. Þá voru ekki nærri því allar þær aðgerðir sem við höfum farið út í komnar til framkvæmda og voru ekki orðnar virkar. Hv. þingmaður ætti að bera saman stöðuna í dag en ekki 2010 þegar hann talar um að 60 þús. heimili séu í vanda. Ég geri ekki lítið úr því, (Forseti hringir.) en það hefur mikið skeð á þeim tíma sem hv. þingmaður miðar við í aðgerðum til að bæta stöðu heimilanna. (Gripið fram í: Eins og hvað?)