140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

afnám verðtryggingar.

[10:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Undanfarið höfum við mátt verða vitni að því að margir félagar hæstv. forsætisráðherra hafa komið fram, m.a. hæstv. utanríkisráðherra og svo félagsmenn í Samfylkingunni, og fjallað um að nú væri kominn tími á hæstv. forsætisráðherra. Hæstv. forsætisráðherra hefur setið á þingi í 34 ár og til gamans má geta þess að það er fjórum árum lengur en sá sem hér stendur hefur lifað þannig að hæstv. forsætisráðherra var búinn að vera á þingi í fjögur ár þegar sá sem hér stendur fæddist.

Fjöldi ungs fólks glímir við mikinn skuldavanda og við þingmenn fengum í gær meðal annars bréf frá ungu pari á Akureyri. Það er ekki eins og hæstv. forsætisráðherra hafi ekki gegnum tíðina fjallað mikið um þessi mál, m.a. verðtrygginguna. Í grein sem hæstv. forsætisráðherra skrifaði í nóvember 1996 sagði, með leyfi frú forseta:

„Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð.“

Jóhanna Sigurðardóttir telur að ríkisstjórnin sé föst í gamla verðbólguhugsunarhættinum. Í gær hafði hæstv. forsætisráðherra gegnt þessu embætti í þrjú ár og Samfylkingin hefur verið í ríkisstjórn í fimm ár. Það liggja fyrir 37 þús. undirskriftir fólks sem hefur skorað á ríkisstjórnina að afnema verðtrygginguna. Það var gríðarlega stór fundur í Háskólabíói í síðustu viku þar sem bent var á leiðir og lausnir til afnáms verðtryggingar.

Nú langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvenær fólkið í landinu megi vænta þess að orð hæstv. forsætisráðherra á árum áður verði að efndum og hvort ekki sé rétt metið hjá þeim félögum hæstv. forsætisráðherra sem hafa talað um að hennar tími kunni að vera kominn.