140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[11:22]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir prýðilega ræðu og gott yfirlit yfir stöðu mála, sérstaklega er varðar landsbyggðina. Um leið vil ég þakka innanríkisráðuneytinu fyrir mjög metnaðarfulla, öfluga, fróðlega og raunhæfa áætlun um fjarskipti landsmanna á næstu árum. Stigin hafa verið mjög stór og jákvæð skref í þessu á liðnum missirum eins og við þekkjum og höfum margoft rætt í þingsal eftir að netbyltingin hóf innreið sína. Það var alveg ljóst að þau landsvæði, þeir íbúar í strjálbýli og dreifbýli sem ekki hefðu aðgang að háhraðatengingum á svipuðu verði, með svipuðu öryggi og gæðum og það sem best gerist í þéttbýlinu, yrðu með einhverjum hætti út undan og ójafnræðis mundi gæta hvað varðaði búsetuskilyrði.

Það sem blasir við í áætluninni er að stærðin og íbúafjöldinn marka landinu ákveðna sérstöðu þar sem 63% íbúanna búa á 1% landsvæðisins. Þar er þessum málum ágætlega fyrir komið og alveg prýðilega. En ríflega 20 þús. manns, 6,4% íbúanna, búa í dreifbýli og þar er þessum málum mjög misjafnlega fyrir komið, allt frá því að sums staðar er þetta rekið af einkaaðilum í gegnum gervihnattasambönd sem eru bæði óöruggari og dýrari en það sem við þekkjum í þéttbýli. En mér sýnist að hér sé lögð upp mjög metnaðarfull áætlun um að ná fyrir þetta á næstu árum þannig að allir íbúar Íslands, bæði í dreifbýli og þéttbýli, búi við sambærileg skilyrði hvað varðar verð, gæði og öryggi þjónustunnar og háhraðatengingar, hvort sem þeir búa á suðvesturhorninu eða í dreifbýlinu.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem hefur fylgst mjög vel með þessum málum og er af landsvæði þar sem þessara hagsmuna gætir mjög, um viðhorf hans til þessa í áætluninni. Er þessu vel fyrir komið að hans mati (Forseti hringir.) eða þurfum við að ganga lengra?