140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[11:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, hann fór mjög víða yfir efnið.

Tillaga til þingsályktunar um 12 ára fjarskiptaáætlun hljómar dálítið eins og fimm ára áætlanir í Sovétríkjunum, þetta er svona opinber stefnumörkun. Ég spyr hv. þingmann hvar hann sér einstaklingsframtakið í því að byggja upp, ég sakna þess. Hann fór í gegnum það að þetta sé mjög mikilvægt fyrir atvinnurekstur úti á landi, og það er það, getur minnkað og brúað fjarlægðir sem er kannski mjög mikilvægt, t.d. í ferðaþjónustu. En hvar sér hann möguleikana í þessu fyrir einkaframtak, sem að mínu mati gerir hlutina alltaf arðbærast og hraðast. Þetta byggir allt mikið á því að ný tækni sé innleidd mjög hratt af því að gífurleg þróun er í þessu.

Hv. þingmaður talaði um hringtengingu. Ég vil spyrja hann hvort hringtenging, sem er orðin mjög stór, í kringum allt landið, hætti ekki að vera það öryggistæki sem menn telja því að á svona langri leið gæti bilað á tveimur stöðum. Það kemur kannski hlaup í jökulárnar á Suðausturlandi og svo rofnar tengingin hérna á Hellisheiðinni vegna jarðskjálfta. Þá getur allt svæðið þar innan búið við ákveðið óöryggi nákvæmlega eins og litlir staðir án hringtengingar. Ég er því ekki viss um að hringtenging ein sér sé nægileg, því þurfi að gera margt fleira og ég er viss um að menn eru að gera það.