140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[11:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka það fram hér aftur að ég er mjög ánægður með þessar fjarskiptaáætlanir frá innanríkisráðuneytinu. Ég tel að hér sé vel unnið og að mjög vel hafi verið tekið utan um þennan mikilvæga málaflokk og lögð fram metnaðarfull áætlun sem ég held eftir fyrstu yfirferð að sé raunhæf og mögulegt að koma til framkvæmda. Þar er tekið á því sem út af hefur staðið í fjarskiptamálunum og snertir sérstaklega landsbyggðina og dreifbýlið eins og við ræddum aðeins áðan eftir ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Það blasir við og hefur gert núna skýrar en oft áður að fjarskipti og samgöngubætur eru án efa ein mikilvægustu samgöngumálin þar sem við erum að bæta umferðaröryggi og stytta leiðir á milli byggðarlaga með stórfelldum samgöngubótum eins og við höfum séð ganga inn á framkvæmdastig og verða að veruleika á síðustu árum. Er hægt að telja upp margt því til staðfestingar, eins og Suðurstrandarveg, Landeyjahöfn, tvöföldun á vegum, væntanlegar gangagerðir hér og þar o.s.frv. Við Íslendingar höfum tekið stór skref fram á við á seinustu árum og kannski seinasta áratuginn í samgöngumálum og auðvitað fjarskiptamálum líka.

Það er rakið vel hérna í áætluninni hvernig þessum málum er fyrirkomið og hver munurinn er á milli suðvesturhornsins og þéttbýlisins þar og stærstu þéttbýliskjarna úti á landi þar sem þessum málum er ágætlega fyrir komið. Fólk hefur aðgang að einhverri ódýrustu fjarskiptaþjónustu í veröldinni og einnig að þeirri öruggustu og bestu um leið. Þetta er árangur af starfi síðustu ára í fjarskiptamálum, áður í samgönguráðuneytinu, og starfi annarra aðila sem að þessu standa. Árangurinn af því er yfir það heila mjög góður. Þorri landsmanna, eins og kemur fram hérna, býr á þessu litla svæði, 1% landsins, þar sem þessum málum er ágætlega fyrir komið, en við þurfum að ná enn betur og endanlegar utan um dreifbýlustu svæðin, þessa 20 þús. Íslendinga sem búa í dreifbýli, búa í sveitunum þar sem getur verið langt á milli og dýrt að koma á fasttengingum og ljósleiðurum. Þar hafa bil verið brúuð með þráðlausum tengingum, sem sagt gervihnattamóttökurum og sendingum.

Við þekkjum þau fyrirtæki sem ruddu brautina, byggðu upp þessa þjónustu á eigin forsendum og gerðu það auðvitað eins vel og þau höfðu efni á á þeim tíma, í uppsveitum Suðurlands, í Skaftafellssýslunum, vestan og norðan í dreifbýlinu þar sem var ekki til staðar aðgengi að internettengingunum eftir að menn hættu að nota símalínurnar gömlu og fóru að hafa not fyrir meiri bandbreidd og meiri hraða á tengingunum. Þekki ég það ágætlega sjálfur þar sem ég hef lengi verslað við lítið fyrirtæki sem kom upp slíkum búnaði fyrir áratug og veitir í sjálfu sér ágæta þjónustu. Það er háhraði um þráðlausa tengingu og má segja að það hafi bjargað málunum af því að landsvæði og íbúar sem hafa á síðustu árum ekki búið við aðgengi að boðlegri internettengingu hafa ekki þau búsetuskilyrði sem eru sjálfsagður valkostur fyrir fólk í nútímanum.

Eins og við höfum nefnt í dag hefur mikill fjöldi landsmanna í dreifbýlinu sótt sér menntun og byggt upp metnaðarfull fyrirtæki og hvers kyns atvinnustarfsemi í gegnum netið. Netaðgangur liggur því til grundvallar að fólk geti sótt sér menntun, bæði framhaldsskóla- og háskólamenntun. Mörg hundruð og þúsundir Íslendinga hafa gert það á síðustu árum og munu örugglega gera í miklu meira mæli. Við sjáum hvað þróunin hefur verið framúrskarandi góð í þessum málum og þetta er byggðastefna sem skiptir mestu máli, aðgengi fólks í dreifbýlinu að þessum grundvallarhlutum eins og menntun og því að byggja upp starfsemi í gegnum netið. Í ferðaþjónustunni í dag skiptir aðgengi að nettengingu öllu máli. Það er mikið bókað og auglýst og kynningarstarfið fer meira og minna fram á netinu, og aðgengi að öflugri og öruggri tengingu skiptir öllu máli.

Þetta var leyst eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á áðan í gegnum fjarskiptasjóð á sínum tíma og var það í sjálfu sér vel gert. Við höfðum þó margir miklar efasemdir í þessum málum og ræddum töluvert hér fyrir nokkrum árum um samkeppnislögin sem komu í veg fyrir að fjarskiptasjóðurinn gæti farið inn á svæði þar sem skilgreindur samkeppnisrekstur var til staðar. Þau fyrirtæki sem höfðu af miklum metnaði og dugnaði byggt upp þráðlausa þjónustu sem er töluvert miklu dýrari — hún er allt að þrefalt dýrari en nettengingin í þéttbýlinu, auðvitað ekki eins örugg og góð, brokkgengari en í sjálfu sér ágæt — lentu fyrir utan þessa aðkomu og niðurgreiðslu fjarskiptasjóðs og borga fyrir nettengingar um háhraða í dag upp undir þrefalt hærra verð, 10–12 þús. kr. á mánuði. Þar fyrir utan er mun dýrara að koma henni upp en að kaupa inn tengingu í þéttbýlinu. Þessu þurfum við að breyta, það á eitt yfir alla að ganga og landsmenn eiga að hafa aðgengi að sambærilegri þjónustu hvað varðar öryggi og umbúnað hvers konar og einnig verðið.

Hluti af einu sveitarfélagi var tekinn inn í fjarskiptasjóðinn, hann var ekki á markaðssvæði, en hinn helmingurinn af sama hreppi, sem sagt dreifbýlt sveitarfélag, lenti fyrir utan það og var skilgreint sem samkeppnissvæði af því að þar var lítið fyrirtæki sem af dugnaði og metnaði hélt úti þjónustu sinni. Þar hefði verið sanngjarnast að gera samning við viðkomandi aðila sem veitir netþjónustuna, taka hann inn í þetta og niðurgreiða tengingarnar í gegnum hann. Þannig væri ekki gengið gegn hagsmunum einkaaðila sem á mikið lof skilið. Þessir aðilar byggðu upp þessar veitur sem veita netaðgang í gegnum þráðlausar tengingar meira af hugsjón en hagnaðarsjónarmiðum. Það skipti sköpum á sínum tíma, fyrir sjö, átta, níu árum þegar þessar þráðlausu háhraðatengingar voru að ryðja sér til rúms, að íbúar hinna dreifðu byggða hefðu þó þann aðgang þótt dýrari og óöruggari væri, en þó það.

Þessi þráðlausu samskipti hafa öll batnað og þróast líka og getur vel komið til greina að leysa mál einhverra svæða, þar sem er dýrast og erfiðast að koma mögulega ljósleiðara á eða línum í jörð með þráðlausum hætti, en það þarf að gerast á jafnræðisgrundvelli þannig að allir íbúar Íslands í dreifbýli og þéttbýli sitji við sama borð og það sé ekki verið að mismuna fólki eftir því hvar á Íslandi það býr hvað varðar aðgengi að þessum upplýsingaveitum. Við teljum þær orðið til sömu grundvallarþarfa og aðgengi að heitu og köldu vatni og rafmagni. Það sest enginn að neins staðar í dag nema hafa aðgengi að öflugri háhraðatengingu og við þurfum ekkert að hafa öllu fleiri orð um af hverju. Ég nefndi áðan að það er auðvitað afþreyingin og öll samskiptin sem ganga á milli fólks á netinu í dag, tölvupósti og með öðrum hætti, en síðast en ekki síst hagsmunir fólks hvað varðar atvinnuhætti og menntun.

Þetta er grundvallaratriði fyrir Íslendinga í dreifbýlinu í dag, þessa rúmlega 20 þús. íbúa sem búa í hreinu dreifbýli utan þéttbýliskjarnanna sem er tekið utan um með öðrum hætti. Við verðum að tryggja þessu fólki á allra næstu mánuðum jafnstöðu hvað þetta varðar. Þetta er eitt mikilvægasta hagsmunamál dreifbýlisins í dag og við eigum að taka vel utan um það og í þessari fjarskiptaáætlun frá hæstv. innanríkisráðherra er metnaðarfull áætlun um landsbyggðina. Ég þakka aftur fyrir hana og fagna því að það er myndarlega tekið utan um þetta mál af hálfu ráðuneytis og ríkisstjórnar, en okkar á Alþingi er að tryggja að hin metnaðarfulla áætlun geti gengið eftir. Það hafa verið stigin mjög stór og jákvæð skref en eins og ég segi orkaði þessi ákvörðun á sínum tíma um samkeppnissvæðin og fjarskiptasjóð tvímælis. Það hefur komið í ljós, gerði það strax, að það var ekki ásættanlegt og þessar þúsundir íbúa á svæðum sem voru skilgreind sem markaðssvæði urðu með einhverjum hætti út undan. Þar gætir ekki jafnræðis.

Í markmiðsgrein um aðgengi og dreifð fjarskipti í áætluninni segir að öllum landsmönnum verði tryggð jöfn aðstaða til að tileinka sér möguleika upplýsingatækninnar. Það er glæsilegt markmið og algjört grundvallaratriði í þessu öllu saman, en til að þessi markmiðssetning gangi eftir þurfum við að endurskoða fyrri ákvörðun um samkeppnissvæðin og fjarskiptasjóð þannig að eitt gangi yfir alla. Það verður bara að viðurkennast að við getum ekki látið það bitna á íbúum svæðisins að einkaaðili haldi úti þessari þjónustu, heldur á að samræma hagsmuni fyrirtækisins sem heldur úti háhraðaþjónustunni í gegnum þráðlausa veitu og íbúanna með því að gera samkomulag við gagnaupplýsingaveituna og fjarskiptaveituna. Þá gengur það í gegnum hana þannig að verð sé sambærilegt, sem og öryggi og þjónusta. Þetta er ekkert stórmál hvað varðar fjármuni eða aðrar athafnir, þetta er meira en gerlegt. Við getum vel náð utan um þetta og við lærum bara af reynslu síðustu ára þar sem vel var tekið utan um þetta í ráðuneytinu og af ráðamönnum á síðustu árum.

Við höfum fylgst vel með þessu síðustu tíu árin og reynt að stíga skrefin jafnóðum og þau hafa þróast af því að auðvitað hafa þessi upplýsingamál tekið stakkaskiptum og þróast miklu hraðar en fyrirséð var á þessum árum. Það sem voru kallaðar viðunandi internettengingar fyrir ekkert svo löngu, ISDN og þetta, heyrir algjörlega sögunni til. Það er krafa um miklu meiri bandbreidd og miklu meiri hraða og eitt mikilvægasta hagsmunamál okkar í dag er að tryggja örugg og öflug fjarskipti á góðu verði. Eins og ég sagði kemur fram í áætluninni að verð á fjarskiptaþjónustu til Íslendinga sé mjög hagstætt, samanborið við önnur lönd. Fastlínutengingar eru til dæmis þær ódýrustu á byggðu bóli, að mér skilst. Við eigum að halda þessum metnaðarfulla dampi sem við höfum haft í fjarskiptamálum og hæstv. ráðherra er greinilega fylgjandi þessum áætlunum sem ég heyri að er þverpólitísk samstaða um. Þá er líka um að gera að tryggja þverpólitískt bakland á bak við hana þannig að metnaðarfull áætlunin geti gengið fram.