140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[12:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að um þetta mál hefur verið málefnaleg og góð umræða í dag, enda mikilvægt mál, og í raun er ekki ástæða til mikils pólitísks ágreinings um málið. Hins vegar langaði mig aðeins að fá frekari skýringar hjá hv. þingmanni. Ég náði ekki alveg fyrri hluta ræðunnar en hann vildi vara við of miklum pólitískum afskiptum í þessum málaflokki.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að í þessum málaflokki og einmitt hvað varðar fjarskipti sé mjög mikið atriði að höfð séu pólitísk afskipti. Öðruvísi hefðum við ekki með nokkrum hætti getað byggt þetta upp. Með öðrum orðum, byggt upp góð fjarskipti í dreifbýlustu svæðum landsins, en dreifbýlustu svæði landsins hafa mátt glíma við það einmitt í nafni markaðarins að stóru fjarskiptafyrirtækin vilja ekki fara inn á þau svæði. Mig langar því að fá þingmanninn til að útskýra aðeins betur hvað hann eigi við með því að varast beri opinber afskipti og hvort hann sé ekki sammála mér að einmitt með opinberum afskiptum af þessum málaflokki á félagslegum grunni getum við best tryggt dreifbýlustu svæðum landsins jafngóðar tengingar og þekkjast á höfuðborgarsvæðinu.

Við þekkjum þetta til að mynda í símavæðingunni, þegar landið var símavætt. Ég fullyrði eða ég er nærri viss um að ef það hefði ekki verið gert með opinberum afskiptum á félagslegum grunni hefði það ekki orðið með þeim hætti sem það varð. Mig langaði kannski að fá aðeins betri innsýn í þetta hjá hv. þingmanni.