140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[13:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að sé mjög mikilvægt að við tökum þessa umræðu og gerum það mjög yfirvegað. Það er mikilvægt að fá botn í þessi mál sem hafa verið að velkjast í kerfinu lengi, og kannski ekkert óeðlilegt að menn taki sinn tíma þegar gera á grundvallarbreytingar á stofnanakerfi hjá hinu opinbera. Alls ekki.

Ég tel að nákvæmara væri, þegar hv. þingmaður segir að nefndin hafi verið sammála um að stíga stærri skref, að segja þvert á móti að nefndin hafi verið sammála um að stíga önnur skref, vegna þess að þetta eru mjög stór skref. Menn vildu stíga þau skref eins og ég gat um áðan, sumir hverjir, að færa tiltekna þætti jafnvel Siglingastofnun alla og Landhelgisgæsluna saman og búa til sameiginlega stofnun þar að lútandi.

Ég vek athygli á að þó að samstaða hafi verið um þetta í nefndinni á sínum tíma, eins og hv. þingmaður gat um, hefur komið að þessum málum ótölulegur fjöldi aðila úr þessum geirum. Það var ekki bara Ríkisendurskoðun sem vakti máls á þessu og leiddi okkur í þessa vegferð upphaflega og er að skoða með hvaða hætti hægt sé að nýta fjármuni betur, heldur hefur ótölulegur fjöldi annarra einstaklinga komið að þessu.

Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég var ákveðinn efasemdarmaður um þetta í byrjun, fremur íhaldssamur þegar kemur að stofnanabreytingum almennt hjá hinu opinbera, tel að menn hafi oft lagt of mikið upp úr slíku, alveg tvímælalaust, en ég hef sannfærst um að þetta sé mjög skynsamlegt. Við erum að fara inn í nýjan tíma með því að horfa á samgöngur, hvar sem þær eru, hvort sem þær eru á sjónum, í loftinu eða á vegunum, heildstætt. Við sjáum það bara með þjóðveginum til Vestmannaeyja. Þar hafa komið að (Forseti hringir.) vinnunni vegagerðarmenn og siglingastofnunarmenn, aðilar sem eftir þessar breytingar kæmu til með að sitja hlið við hlið í sömu stofnun.