140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[13:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég var að fylgjast með hvort hæstv. innanríkisráðherra yrði ekki hér, að minnsta kosti í hliðarherbergi, á meðan ég flytti þessa ræðu mína — þarna kemur hæstv. innanríkisráðherra og ég fagna komu hans því að aðrir eru ekki hér í þingsal.

Við ræðum hér frumvarp til laga um Farsýsluna sem er stjórnsýslustofnun samgöngumála. Í andsvörum við hæstv. innanríkisráðherra áðan kom ég inn á skoðun mína á þessu máli og hæstv. innanríkisráðherra hvatti til þess að menn færu efnislega og málefnalega í umræðuna og væru kannski ekki eins hátt stilltir og við vorum hér áðan. Ég ætla að reyna að gera það.

Eins og ég kom inn á í andsvari mínu við hæstv. innanríkisráðherra, þegar hann mælti fyrir málinu áðan, er ég ekki sannfærður um það — það varð niðurstaða hv. samgöngunefndar á vorþingi 2011 að stíga bæri frekari skref til sameiningar. Það kom reyndar fram hjá hæstv. innanríkisráðherra að í millitíðinni hefði það verið skoðað í ráðuneytinu hvort skynsamlegt væri að gera það. Niðurstaðan er sú að leggja fram óbreytt frumvarp, eins og það sem dagaði hér uppi á vorþinginu 2011.

Nú á ég eftir að kynna mér og fara yfir rök ráðuneytisins fyrir því sem í því felst, hvaða annmarkar eru á því, það hefur ekki komið fram á fyrri stigum málsins. Ég ætla svo sem ekki að alhæfa um að þar sé ekki eitthvað gagnlegt og gott án þess að hafa séð þau rök. Það sem ég vil þó fyrst gera að umtalsefni er það sem hæstv. innanríkisráðherra kom inn á þegar hann mælti fyrir málinu áðan, að þær fagnefndir sem starfa til aðhalds og stuðnings við þær stofnanir sem þarna eru, þ.e. siglingaráð, flugráð og umferðarráð — hann benti á texta í frumvarpinu um að til standi að hafa áfram samvinnu og samráð. Það verður þá skipað hagsmunaaðilum og öðrum þeim sem þekkja til á viðkomandi sviðum. Ég átti sæti í siglingaráði í nokkur ár og það er í dag skipað fagaðilum sem koma með ábendingar til ráðuneytisins hvað varðar öryggismál sjómanna og margt fleira.

Í greinargerð með frumvarpinu eru lagðar fram fullyrðingar um hvernig megi spara. Svo að ég vitni orðrétt í frumvarpið, með leyfi forseta:

„Samanburður á hlutfalli stjórnenda og starfsmanna stoðdeilda þeirra stofnana sem mynda Farsýsluna og stærri stofnana (með um 150 starfsmenn eða fleiri) bendir til þess að tækifæri séu til að lækka yfirstjórnarkostnað um allt að 50% eða sem samsvarar rúmum 11% af heildarrekstrarkostnaði.“

Þetta eru kunnuglegar setningar sem stóðu reyndar í fyrra frumvarpinu líka, um að hægt væri að spara með þessum hætti. Ég kallaði ítrekað eftir því í meðferð málsins í samgöngunefnd á síðasta ári að við fengjum að sjá grunninn að þessum gögnum. Hvers vegna setur ráðuneytið fram þá niðurstöðu að það megi spara allt að 50%, þ.e. 11% af heildarrekstrinum? Mér voru aldrei sýnd þau gögn og ég kallaði margoft eftir þeim. Ég spurði þessarar einföldu spurningar: Hvernig stendur á því að ráðuneytið kemur með þessar fullyrðingar í frumvörpum og getur ekki leyft nefndinni að skoða undirgögnin sem liggja að baki? Við fengum aldrei að sjá undirgögnin. Það er ekki nema von að maður setji fyrirvara við svona fullyrðingar, ekki síst í ljósi þess að við erum með skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem segir okkur að í 85% tilvika gangi slík markmið ekki eftir. Hvers vegna ekki? Jú, það er vegna þess að grunnurinn að því að fara í þá vegferð sem verið var að gera þegar verið var að sameina stofnanir er ekki nógu skýr og verkferlarnir ekki nógu klárir.

Ég hlýt því að staldra við það, virðulegi forseti, að þessar fullyrðingar séu settar fram um þennan sparnað, en síðan á fagnefndin sem fjallar um málið, í þessu máli eins og öllum öðrum, að rýna í það sem að baki liggur. Það er ekki hægt þannig að ég hef efasemdir og geri athugasemdir við þetta þangað til mér er sýnt fram á annað.

Þær eru líka alveg sérumræða þær fullyrðingar um sparnað sem verði við sameiningu þessara stofnana. Þá getur framkvæmdarvaldið sagt, og það hefur verið gert í gegnum tíðina: Kostnaðurinn við sameininguna var meiri en áætlað var og þetta er jú einskiptisaðgerð. Þannig er það réttlætt þegar menn keyra fram úr. Þetta er alveg kristaltært í hverju málinu á fætur öðru í gegnum árin og jafnvel áratugina.

Ég sætti mig ekkert við það í þessu máli. Ef við tökum þá umræðu sem við höfum oft átt hér í þinginu um þá stefnu sem á að fara eftir, sérstaklega í ljósi þess að menn ætla hugsanlega að stíga stærri skref inn í framtíðina með frekari sameiningar, gangi þetta eftir eða frekari verkefni, þá þekkjum við nokkuð til þess sem heitir húsnæðiskostnaður ríkisins. Þar leigir ríkið ýmist eða á húsnæði — í þessu tilfelli held ég að ríkið eigi eingöngu eitt af þessu húsnæði sem viðkomandi stofnanir eru í, og hinar þrjár séu í leiguhúsnæði. Eins og ég kallaði eftir á fundi nefndarinnar hefði ég viljað fá að sjá hve langur tími er eftir af þeim leigusamningum, hvernig þeir eru settir upp og hver hagræðingin er. Ég tel eðlilegt að þingnefnd, fagnefnd um málin, fái upplýsingar um þetta og kafi ofan í það til að geta tekið upplýsta ákvörðun. Við erum allt of oft, eða margir hverjir hér í þingsal, þó að ég sé ekki að saka hæstv. innanríkisráðherra um það, í þeirri hugsun að hlutirnir reddist bara seinna.

Ég á sæti í hv. fjárlaganefnd og þar erum við með hvert málið á fætur öðru þar sem allt er í eintómri vitleysu. Það er alltaf haldið áfram. Það bætist alltaf við. Nógu mikið er talað um að breyta og skoða betur og allt þetta og rannsaka aftur í tímann, hvað hafi brugðist, en það breytist ekki í því sem við erum að gera hér. Það finnst mér dapurlegt. Ég tel því mjög mikilvægt að þetta verði skoðað sérstaklega.

Það kom líka í ljós á fundi nefndarinnar að til að mynda samhæfing á tölvukerfum og annað á þessum stofnunum er kannski kostnaðarsöm og illmöguleg án þess að skipta tölvunum bara út; það eru mismunandi kerfi og þar fram eftir götunum, það þurfum við að rýna.

Það þýðir ekki, eða að minnsta kosti tek ég ekki þátt í því, að það eigi bara að gera í næsta máli en ekki núna. Mér finnst löngu kominn tími til, hvort sem það á við um Farsýsluna og Vegagerðina, Vaðlaheiðargöng eða hvað sem er, að spyrna við fótum og taka þessa umræðu í stað þess að stilla mönnum upp og segja: Þú ert með — eða: Þú ert á móti. Þetta fjallar ekki um það, þetta fjallar um fagleg vinnubrögð sem hv. þingmenn gagnrýna oft og tíðum en halda svo alltaf áfram á sömu braut.

Ég set stórt spurningarmerki við húsnæðiskostnaðinn. Nýjasta dæmið í því er einmitt sameining í Stjórnarráðinu. Hvað gerðist við sameininguna í Stjórnarráðinu? Ég er reyndar enn að bíða eftir minnisblaði, sem mér var lofað úr forsætisráðuneytinu, við umræður í fjárlaganefnd í haust. Sá kostnaður fór fram úr áætlun svo að nam nokkrum hundruðum milljóna, að ég tel, bara sisona. Þá er sagt: Jú, þetta er einskiptiskostnaður. Það var farið í meiri breytingar o.s.frv. En samt sem áður leggja menn upp með að spara í stjórnsýslunni, fækka ráðuneytum og fækka ráðherrum, sem ég set stórt spurningarmerki við. Ég tók það fram í þeirri umræðu að þegar skipt er um ríkisstjórn, alveg sama hver hún er og hvernig hún er skipuð, eru menn alltaf í þessum ráðuneytisflutningum upp á tugi og hundruð milljóna, í staðinn fyrir að setja þá bara tvo ráðherra inn í eitt ráðuneyti og hafa málaflokkinn þannig að ekki sé alltaf verið að hringla með þennan stofnkostnað á sama tíma og verið er að loka á heilbrigðisstofnunum, skerða þjónustuna og reka fólk út á gaddinn og þar fram eftir götunum. Þess vegna set ég mjög stóra fyrirvara, mér hafa ekki verið sýnd þau gögn sem standa á bak við þessar fullyrðingar.

Síðan þarf að skoða biðlaunaréttinn. Það kom reyndar fram í meðförum nefndarinnar að biðlaunaréttur starfsmanna einstakra stofnana er kannski allt að 200 milljónir. Það kemur fram í frumvarpinu að tryggja eigi fólki sambærileg störf í nýrri stofnun. En hvað er verið að spara? Ég er ekki farinn að sjá neinn sparnað. Margir virðast vera uppteknir af því að geta sagt: Jú, við fækkuðum ríkisstofnunum. En það er ekki skoðað í grunninn hver kostnaðurinn er. Þannig slær þetta mál mig.

Mig langar að koma að meðförum nefndarinnar á þessu máli á fyrri stigum. Frumvarpið er nánast óbreytt. Það var alveg skýr niðurstaða nefndarinnar allrar, þverpólitísk, að stíga bæri frekari skref til sameiningar. Það var nefnt í því tilfelli að möguleikar væru til staðar hjá Landhelgisgæslunni, Fiskistofu, í hluta af starfsemi Hafrannsóknastofnunar og þar fram eftir götunum. Ég tel hins vegar að hægt sé að ná fram mun meiri hagræðingu með því að fara í frekari sameiningar. Ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað að fara frekar þá leið að hafa eina stjórnsýslustofnun sem snýr að landsvæðinu og aðra að vegagerðinni eða framkvæmdunum.

Eigi að síður heldur málið áfram með þessum hætti. Ég fór yfir það í andsvari mínu hér áðan við hæstv. ráðherra að það kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti meiri hlutans að þetta sé vörðuð leið fyrir hæstv. ráðherra, að það sé fyrsta skrefið að fara í þessa sameiningu en ekki í lengra skref. En eins og ég gat um í andsvarinu var bráðabirgðaákvæði samt sett áður inn í tillögu meiri hlutans en ég geri mér þó fullkomlega grein fyrir því að með því að samþykkja ekki frumvarpið tekur bráðabirgðaákvæðið ekki gildi. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því en það lýsir samt sem áður stöðunni.

En hvers vegna taldi meiri hluti samgöngunefndar þetta óyfirstíganlegt á sínum tíma? Það kemur reyndar mjög skýrt fram í nefndarálitinu og í umfjöllun nefndarinnar. Það var vegna þess að í gegnum tíðina hefði verið mjög erfitt að sameina stofnanir þvert á ráðuneytisgirðingarnar, þ.e. að ráðherrar á hverjum tíma verji alltaf „sitt greni“, eins og maður segir. Það má ekki fækka stofnununum undir þeim, þeir verða að hafa allt hjá sér, það má ekki setja neitt undir annan ráðherra, hvað sem viðkemur faglegri stjórnun og þar fram eftir götunum.

En það er líka vitnað í það í nefndaráliti meiri hlutans að til standi að fara í þessar breytingar á Stjórnarráði Íslands, og þá muni þessar girðingar falla. Það sé eitt af markmiðum með breytingunum að girðingarnar falli og þess vegna setur meiri hluti nefndarinnar það inn — það eru tilmæli, þetta er bráðabirgðaákvæði — að fyrir 1. febrúar 2012, einungis hálfu ári eftir að lögin yrðu samþykkt, leggi hæstv. innanríkisráðherra fyrir ríkisstjórn og Alþingi skýra áætlun um frekari sameiningar.

Þó að ég sé ekki þingreyndur maður veit ég ekki til þess að þetta geti verið með þessum hætti, þessi stutti fyrirvari, hálft ár, að eftir þann tíma komi fram skýr stefna frá hæstv. ráðherra um frekari sameiningar. Það blasti við öllum á þeim tíma að hægt væri að fara í frekari sameiningar þvert á ráðuneyti. Ég gæti haldið langar ræður um það hvar ég sæi möguleika á því, en tíminn leyfir það ekki. Ég vil þó nefna eitt dæmi sem snýr að Siglingastofnun og Fiskistofu, annars vegar hvað varðar útgáfu veiðileyfa og hins vegar haffærisskírteina. Þetta er sami grunnurinn, gefinn út á svokölluðum skipaskrárnúmerum, þannig að mjög mikil samlegðaráhrif eru á þessum sviðum.

Ég er því hissa á því að ráðuneytið skuli komast að því eftir skoðun í sumar, eftir legu sumarlangt, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, að þessi leið væri ekki fær sem klárlega kemur skýrt fram í vilja nefndarinnar sem fjallaði um málið og hafði lagst yfir það. En ég ætla svo sem ekki að hafa stór orð um það því að ég hef ekki séð gögnin sem liggja þar að baki. Það getur vel verið að það sé eitthvað í þeim og hugsanleg einhverjar frekari hugmyndir ráðuneytisins um það hvernig megi gera þetta í þessa veru. Ég ætla ekkert að hafa stór orð um það fyrr en ég sé það.

Ég tel eigi að síður mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem ég þykist vita að fari mjög vandlega yfir málið og skili því síðan aftur inn til þingsins eftir þessa umræðu, verði búin að svara þeim spurningum sem mér finnst vanta svör við. Þá getum við fjallað efnislega um málið og farið betur yfir það en við gerum hér við framlagningu þess. Ég ætla að nota síðustu sekúndurnar til að segja að ég hef ekki tíma til að fara yfir faglegan ávinning sem ég set líka spurningarmerki við, en fyrst og fremst þann fjárhagslega sparnað sem ræðst af sameiningu þessara stofnana.