140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[13:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir hversu vel hann tekur í það að menn skoði þetta með þeim hætti sem við erum sammála um að verði gert. Það þarf nefnilega að skoða þessa hluti algerlega ofan í kjölinn, eins og hæstv. ráðherra tók undir, þannig að þingið geti í raun tekið upplýsta ákvörðun. Það þarf að skoða húsnæðismálin, það þarf að skoða þessar fullyrðingar og fá gögn en ekki bara þennan texta um að hægt sé að spara 50% í yfirstjórn sem þýðir 11% sparnað á heildarrekstur stofnunarinnar. Þetta eru engar smátölur. Það hlýtur að vera eðlilegt og ég trúi ekki öðru en því að þeir sem vinna þetta í ráðuneytinu séu með ákveðin undirgögn um það og geti sýnt nefndinni þau. Það var ekki hægt í umræðunni um málið þó að ég margítrekaði og kallaði eftir þeim á fundi samgöngunefndar. Ég vil bara fá að sjá nákvæmlega hvernig þetta er gert.

Síðan verðum við líka að varast, og ég heyri að hæstv. ráðherra er sammála mér um það, að það verði ekki raunin eins og búið er að gerast allt of oft, þegar farið er í sameiningar sem kosta svo miklu meira en áætlað var. Síðast voru það einmitt breytingar á Stjórnarráðinu. Þær fóru í eintóma vitleysu. Lögð voru fram plön af ráðuneytunum með hvaða hætti ætti að fara í sameiningu, síðan fóru þau plön einhver hundruð milljóna fram úr áætluðum kostnaði og þá komu skýringarnar: Jú, þetta skilar sér seinna. Við megum ekki festast í því. Það er algerlega útilokað að mínu mati og þarf að skoða eins og ég sagði bæði húsnæðismálin og leigusamningana hjá viðkomandi stofnunum. Hvernig eru þeir? Hvað er langur tími eftir af þeim? Ríkið á reyndar eitt húsanna tel ég að sé rétt hjá mér. Hver er biðlaunaréttur starfsmanna o.s.frv.? Aðalatriðið er að menn komist ekki upp með það eina ferðina enn að segja: Jú, við fórum í sameiningu, áætluðum þennan sparnað en því miður var þetta einskiptisaðgerð og þess vegna fór hún fram úr áætlun en sparnaðurinn mun að sjálfsögðu koma seinna.